Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að viðskiptabankarnir þrír ættu að endurskoða áform sín um að greiða út arð í ljósi versnandi efnahagshorfa vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Boðaðar arðgreiðslur bankanna, sem hluthafar munu greiða atkvæði um á aðalfundum þeirra síðar í þessum mánuði, nema samanlagt tæplega 24 milljörðum króna. Tveir bankanna, Íslandsbanki og Landsbankinn, eru í eigu ríkissjóðs.

„Það má spyrja sig hvort það sé við hæfi að bankarnir greiði út arð eins og staðan er núna,“ segir Ásgeir í viðtali við Markaðinn. Vísar hann þar til þess að bankarnir þurfi að hafa borð fyrir báru til að mæta afskriftum á útlánasöfnum sínum í yfirstandandi niðursveiflu og svigrúm til að takast á við tímabundna lausafjár- og greiðslufjárerfiðleika fyrirtækja, einkum í ferðaþjónustu.

Aðspurður segir hann að allir bankarnir ættu að endurskoða tillögur sínar um arðgreiðslur. „Já, mér finnst það í ljósi aðstæðna. Þeir þurfa á þessum krónum að halda frekar en hluthafar,“ útskýrir Ásgeir.

Tillaga stjórnar Arion banka, sem er skráður á markað og í einkaeigu, gerir ráð fyrir því að samtals tíu milljarðar króna verði greiddir í arð til hluthafa. Þá hefur Landsbankinn boðað arðgreiðslu upp á 9,5 milljarða og Íslandsbanki hyggst greiða 4,2 milljarða í arð.

Þrátt fyrir væntanlegar arðgreiðslur, sem stjórnir bankanna gerðu tillögur um í síðasta mánuði, munu eiginfjárhlutföll bankanna eftir sem áður vera vel umfram þær eiginfjárkröfur sem gerðar eru til þeirra.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands flýtti vaxtaákvörðun sinni um eina viku og ákvað í gær að lækka vexti um hálft prósentustig. Um leið var meðaltalsbindiskylda bankanna lækkuð úr einu prósenti í núll prósent til að rýmka lausafjárstöðu þeirra. Fjárfestar brugðust vel við ákvörðun nefndarinnar og hækkaði Úrvalsvísitalan um 2,5 prósent og ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði um allt að 20 punkta.

Birgir Haraldsson, sérfræðingur hjá Akta sjóðum, segir Seðlabankann hafa tekið góð skref með aðgerðum sínum og skilaboðum í gær. Fastlega megi búast við frekari vaxtalækkunum. „Óvissan hefði orðið of mikil ef bankinn hefði beðið í eina viku í viðbót.“