Ný útlán bankanna, umfram upp- og umframgreiðslur, til atvinnufyrirtækja námu um 10 milljörðum í aprílmánuði. Þetta er sjötti mánuðurinn í röð sem hrein ný lán til fyrirtækja eru að vaxa en frá því í desember nemur útlánaaukningin meira en 40 milljörðum króna.

Þetta má lesa út úr nýjum hagtölum Seðlabankans um bankakerfið, sem birtust í fyrradag, en til samanburðar voru ný útlán bankanna til atvinnulífsins aðeins um 8 milljarðar á öllu árinu 2020. Mestu munaði um aukin útlán til fyrirtækja í þjónustu í síðasta mánuði, sem jukust um tæplega 11 milljarða, en auk þess til fyrirtækja í samgöngum og flutningum.

Samtals námu ný útlán bankakerfisins í liðnum mánuði tæplega 55 milljörðum króna. Á sama tíma og verðtryggð lán voru greidd upp fyrir um 13 milljarða var útlánaaukningin í óverðtryggðum lánum nærri 63 milljarðar króna og hefur aldrei verið meiri í einum mánuði. Þar af námu hrein, ný óverðtryggð lán til heimilanna 38 milljörðum en þau voru að langstærstum hluta, eða sem nemur 30 milljörðum, á breytilegum vaxtakjörum.

Frá áramótum hafa ný óverðtryggð lán til heimilanna, með veði í fasteign, vaxið um rúmlega 135 milljarða króna