Bankar og tryggingafélög hafa verið rög við að fara óhefðbundnar leiðir í markaðsmálum. Auglýsingarnar mættu hafa meira bit. Þetta sagði Hrafn Gunnarsson, hugmynda- og hönnunarstjóri auglýsingastofunnar Brandenburg, í viðtali við sjónvarpsþáttinn Markaðinn sem frumsýndur var á Hringbraut í gær.

Hann benti á að í ljósi þess að fjölmiðlalandslagið sé orðið fjölbreyttara en það var með tilkomu Internetsins hafi þörfin fyrir að feta óhefðbundnar slóðir í markaðssetningu aldrei verið meiri.

Hrafn segir að auglýsingar þessara fyrirtækja snúi oft um að auglýsa farsímaapp eða spjallmenni sem séu í raun leiðir til að gera þjónustuna ópersónulegri því útibúum hafi verið lokað og fólk sé ekki lengur með eigin þjónustufulltrúa. Markaðssetning sé því orðin helsta leiðin fyrir fyrirtækin til að eiga í samskiptum við viðskiptivini.

Hann segir að auglýsingar þessara fyrirtækja séu sjaldan á allra vörum. Mikil tækifæri séu í að gera betur.

Hrafn hafnaði nýverið á 100 manna lista fagritsins Adweek yfir fólk sem skarað hefur fram úr. Á listanum var ekki einungis fagfólk í auglýsingagerð heldur einnig til dæmis leikarinn Dwayne „The Rock“ Johnson.

Í umsögn voru það einkum tvö verkefni sem vöktu athygli Adweek á Hrafni. Herferðin Fishmas sem unnin var fyrir Íslandsstofu og svo ný ásýnd Knattspyrnusambands Íslands . Hið síðarnefnda var á lista Adweek yfir 25 bestu auglýsingar ársins 2020.