Margt bendir til þess að í lok vikunnar muni Ís­land lenda á gráum lista þjóða sem ekki hafi gripið til full­nægjandi að­gerða gegn peninga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.

Listinn er á vegum alþjóðlega framkvæmdahópsins FAFT en í þessari viku hefur staðið yfir mikilvægur fundur samtakanna í París. Fulltrúar 205 þjóða auk fulltrúa mikilvægra alþjóðasamtaka sækja fundinn og mun draga til tíðinda um stöðu Íslands á föstudaginn.

Þá verður meðal annars rætt um stöðu þjóða sem skapa áhættu í fjármálakerfi heimsins, landa á borð við Íran, Pakistan og Ísland. Ef Ísland lendir á gráa listanum yrði það á sama stalli og lönd eins og Afganistan, Jemen, Írak og Úganda. Enn neðar, á svörtum lista, er til dæmis Norður-Kórea.

Heimildir Fréttablaðsins herma að Ísland njóti fulls stuðnings Evrópusambandsins á fundinum og flestra ríkja þess. Sambandið vilji ekki að EES-land lendi á listanum. Það skapi víðtæk vandamál og verði engum til gagns.

Bandaríkin og Bretland eru hins vegar í hópi þjóða sem vilja að Ísland verði sett á listann. Þessi lönd telji að mikilvægt sé að skapa fordæmi um að tekið sé hart á þessari alvarlegu vá sem peningaþvætti er. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafi gengið hægt fyrir sig og því gefist kjörið tækifæri til þess skapa sterkt fordæmi, eins konar víti til varnaðar, með því að setja Ísland á listann. Landið sé lítið og kostnaðurinn því, í stóru alþjóðlegu samhengi, lítill.

Heimildarmenn Fréttablaðsins segja að staðan sem komin er upp sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu. Ítrekað hafi verið varað við í hvað stefndi en viðbrögðin hafi verið allt of hæg til þessa.

Of snemmt er að fullyrða hver skaðinn verður ef Ísland endar á listanum. Ljóst er að um orðsporshnekki verður að ræða en síðan má reikna með því að erfiðara verði fyrir ný íslensk fyrirtæki, sem og einstaklinga, að stofna til viðskipta erlendis.