GN Studios, fyrirtæki Baltasars Kormáks, og fasteignþróunarfélagið Spilda leita nú fjárfesta til að taka þátt í uppbyggingu á íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á lóðum í Gufunesi sem félagið GN Studios keypti af Reykjavíkurborg í árslok 2017.

Þetta herma heimildir ViðskiptaMoggans sem greinir frá en talið er að verkefnið muni kosta um 20 milljarða króna. Samkvæmt fréttinni hefur verið gengið frá samkomulagi vði Spildu um stofnun nýs félags sem mun halda utan um byggingarrétt GN Studios. Ekki liggur fyrir hver hlutdeild Baltasars Kormáks verður í nýju félaginu en hlutur Spildu verður 15 prósent.

GN Studio gerði samkomulag við Reykjavíkurborg árið 2017. Verðmæti byggingarréttarins var metið á 1.290 milljónir króna og auk þess var gert ráð fyrir 350 milljónum fyrir gatnagerðargjöld sem falla til síðar.

Leiðrétting:

Upphaflega kom fram að Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri GAMMA, væri tengdur fasteignaþróunarfélaginu Spilda. Það reyndist vera rangt og er beðist velvirðingar á mistökunum.

Fasteignaþróunarfélagið Spilda er meðal annars í eigu Gísla Reynissonar, sem er stjórnarformaður, og fleiri fjárfesta. Gísli Hauksson á hins vegar fasteignaþróunarfélagið Skipan.