Michelle Ballarin, nú Michelle Roose­velt Edwards, laug í við­tali við Kveik í fyrra um að eiga sveita­setur í Virginíu sem er metið á 30 milljónir Banda­ríkja­dali. Sveita­setrið er í raun í eigu fjár­festisins David B. Ford sem lést á síðasta ári. Ekkja hans segir í við­tali við Was­hington Post að hún skilji ekki hvernig Edwards komst inn í húsið.

Fjallað er ítar­lega um Edwards í frétta­skýringu Was­hington Post um svo­kallað „Ita­lygate“ en hún er sögð í greininni hafa gert sam­særis­kenningunni sem kennd er við „Ita­lygate“ hátt undir höfði. Sam­kvæmt kenningunni á fólk sem starfaði undir ítölskum varnar­mála­verk­taka að hafa, í sam­ráði við hátt setta yfir­menn innan CIA, notað gervi­hnatta­tungl til að færa at­kvæði sem greidd voru til Donald Trump í for­seta­kosningunum til Biden og þannig haft á­hrif á kosningarnar í fyrra.

Í frétta­skýringu Was­hington Post er farið ítar­lega yfir að­komu Edwards að þessu máli og farið yfir það sér­stak­lega hvernig hún laug í við­tali við ís­lenskan miðil, RÚV, um að eiga setrið sem við­tal Kveiks var tekið við hana í nóvember í fyrra, degi eftir kosningarnar.

Þegar Was­hington Post leitaðist eftir svörum frá Edwards sagðist hún ekki vera að veita við­töl að svo stöddu.

Hægt er að lesa frétta­skýringuna hér.

Ballarin í viðtali í sveitasetrinu við fréttamann RÚV, Ingólf Bjarna Sigfússon.
Skjáskot/RÚV