Michella Ballarin, nýr eigandi WOW air, átti fund með eigendum flugfélagsins Erni um möguleg kaup á félaginu. Það staðfestir Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, í samtali við Fréttablaðið í dag. Fyrst var greint frá á RÚV í dag.

„Við ræddum við hana,“ segir Hörður, um fund sem hann átti með Ballarin fyrir um mánuði síðan.

Hann segir að flugrekstur sé erfiður í dag og að þau hafi ekki verið tilbúin til að fara í samstarf við hana.

„Hún var með sínar hugmyndir og við með okkur. Hún var að velta því fyrir sér hvort að það væru einhver samlegðaráhrif þarna sem við gátum, því miður, ekki séð, miðað við hennar hugmyndir í flugrekstur. Við höfum verið að sinna innanlandsflugi, en erum skilgreind sem stórt félag, þannig það væri lítið mál að stækka vélarnar. Við höfum leyfin, en þetta er meira mál en það,“ segir Hörður.

Hann segir að þau hafi ekki séð sinn hag, eða sinna kúnna, að sameinast félagi Ballarin. Þeirra kúnnar séu að mestu leyti íslenskir og að þau sjái um að halda uppi almenningssamgöngum á Íslandi.

Hann tekur líklegt að hún hafi séð hag sinn í að sameina félögin því að Ernir sé með flugrekstrarleyfi á EES- svæðinu. WOW-air félag Ballarin verður í fyrstu rekið á bandarísku flugrekstrarleyfi, en hún hefur greint frá því að áform séu um að það verði síðar á íslensku leyfi.

„Það var eitthvað þannig sem hún var að spá, hvort þetta gæti flýtt fyrir hennar áformum um flugrekstur á milli Bandaríkjanna og Íslands, Evrópu og jafnvel Afríku,“ segir Hörður.

Hann segir að fundurinn hafi ekki leitt þau lengra en að pælingar hennar hafi verið áhugaverðar.

Áætlað er að félagið taki aftur á loft í október. Fyrstu flug eru áætluð til Washington. Ekki er ljóst hvenær fyrstu flug taka nákvæmlega á loft.