Bandaríska athafnakonan Michele Michele Roosevelt Edwards Ballarin, er sögð hafa gert bindandi tilboð í hlutafjárútboði Icelandair. Heimildir herma að tilboðið hljóði upp á tæplega fjörutíu milljónir Bandaríkjadala eða sjö milljarða íslenskra króna.

Upphæðin nemur um helmingi þeirrar upphæðar sem stefnt var að því að afla með hlutafjárútboðinu til viðbótar við loforð bankanna. Ballarin yrði þar með stærsti einstaki hluthafinn.

Gunnar Steinn Pálsson, talsmaður Ballarin, kveðst í samtali við Vísi ekki geta staðfest töluna en fullyrðir að Ballarin hafi ekki komið hingað til lands til að vera með minniháttar þátttöku. Vissulega sé verið að tala um háar fjárhæðir.

Ballarin kom sérstaklega til landsins vegna hlutafjárútboði Icelandair. Útboðið hófst í gær og lauk klukkan fjögur í dag.

Íslendingar hafa flestir heyrt á Ballarin minnst en hún hugðist stofna flugfélag á Íslandi og keypti meðal annars vörumerki WOW air af þrotabúi félagsins. Hún greiddi alls 50 milljónir íslenskra króna fyrir þær eignir sem hún keypti úr þrotabúi flugfélagsins á síðasta ári.