„Við lítum þá gróflegu mismunun sem þarna átti sér stað mjög alvarlegum augum og ég hlýt að skoða réttarstöðu umbjóðanda míns í því ljósi,“ segir Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður Michelle Ballarin sem átti hæsta tilboðið í hlutafjárútboði Icelandair í síðustu viku; því eina sem var hafnað.

„Það er ekki einu sinni hægt að segja að tilboði hennar hafi verið hafnað. Því var einfaldlega ekki svarað,“ segir Páll Ágúst sem las um örlög tilboðs umbjóða síns í fjölmiðlum. Hann segir það hafa komið verulega á óvart hve ófaglega málsmeðferð hún fékk í útboðinu.

„Ég þori að fullyrða að aðrir sjö þúsund þátttakendur í útboðinu hafi ekki verið krafðir um sams konar sönnun fyrir fjármögnun og hún,“ segir Páll Ágúst en hann efast um að afstaða fyrirtækisins til tilboðs Ballarin hafi byggst á fjárhagslegum forsendum yfir höfuð.

„Fyrirtækið og forsvarsmenn útboðsins þurfa auðvitað að svara því en staðreyndirnar tala sínu máli,“ segir Páll og bendir á að hún hafi boðið sjö milljarða og fengið núll. „Höfnun þeirra byggir augljóslega á öðrum forsendum en fjárhagslegum sem vekur auðvitað upp margar spurningar sem krefjast svara af hálfu fyrirtækisins, ekki síst í ljósi þess af hvaða stærðargráðu útboðið var og að um eitt af stærstu fyrirtækjum landsins sé að ræða, fyrirtæki með opinbera skráningu í kauphöll sem þar að auki hefur nýverið fengið ríkisábyrgð.“ Aðgerð af þessari stærðargráðu af hálfu fyrirtækis sem skráð er á opinn markað og sem nýtur opinberrar aðstoðar, þurfi að vera hafin yfir vafa.

Kannski hafi kynferði Ballarin haft áhrif

Aðspurður um hina meintu mismunun segir Páll Ágúst nauðsynlegt að upplýsa hvort umbjóðandi hans hafi í rauninni setið við sama borð og aðrir sem tóku þátt í útboðinu og hvort hennar tilboð var með einhverjum hætti meðhöndlað öðru vísi en annarra.

Menn vildu enga „Soffíu frænku“ í tiltekt hjá félaginu.

Ég held að hér hafi bæði haft áhrif að umbjóðandi minn hefur skoðanir á flugrekstri og hefur tjáð sig um hvað henni finnst mega betur fara hjá fyrirtækinu og mögulega hugnast forsvarsmönnum fyrirtækisins ekki að stórir hluthafar þess hafi slíkar skoðanir. Okkur var einfaldlega ekkert svigrúm gefið til þess að sýna fram á greiðslugetu og í skjóli nætur eftir að útboðinu lauk var henni einfaldlega hent út ef marka má það sem við lásum í fjölmiðlum morguninn eftir. Menn vildu enga „Soffíu frænku“ í tiltekt hjá félaginu og kannski hefur það að einhverju leyti ráðið för í þessari einkennilegu ákvörðun að kaupandinn var kona og þar að auki bæði með mikla reynslu í flugrekstri og skoðanir á því hvað betur mætti fara,“ segir Páll Ágúst.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver næstu skref Ballarin verða en Páll Ágúst segir réttarstöðu hennar til skoðunar og líklegt að hún muni sækja rétt sinn í takti við það sem lög leyfa.