Kýpverskt félag í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, oftast kenndir við Bakkavör, hefur tekið yfir íslenskt dótturfélag. Lán hafa gengið á milli félaganna tveggja en bræðurnir notuðu þau til að endurheimta yfirráð yfir Bakkavör Group.

Í tilkynningu í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að félag bræðranna Alloa Finance ltd., sem er skráð á Kýpur, taki yfir eignir og skuldir íslenska dótturfélagsins Korkur Invest ehf.

Kork Invest notuðu bræðurnir til að kaupa hlutabréf í breska matvælafyrirtækinu Bakkavör Group af kröfuhöfum þess á Íslandi árið 2012 en þeir misstu yfirráð yfir félaginu í kjölfar fjármálahrunsins.

Í umfjöllun Stundarinnar frá því í nóvember kom fram að með því að nota Kork Invest til að kaupa hlutabréfin hefðu þeir getað fengið 20 prósenta afslátt af íslensku krónunum sem notaðar voru til að eignast hlutabréfin af því félagið keypti þessar krónur í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

Korkur Invest hefði síðan árið 2015 selt hlutabréf sín árið 2012 í Bakkavör Group til móðurfélagsins Alloa Finance Ltd en það félag hafði lánað Korki Invest fyrir hlutabréfakaupunum. Korkur Invest hefði auk þess lánað Alloa Finance Ltd. 11 milljarða króna til að kaupa umrædd hlutabréf í Bakkavör Group.

Samkvæmt ársreikningi Korks Invest fyrir árið 2017 námu skuldir við Alloa Finance tæpum fimm milljörðum króna en á móti átti félagið skuldabréf á Alloa Finance sem var fært til bókar á 8,6 milljarða króna. Eins og áður segir hefur Alloa Finance nú tekið yfir eignir og skuldir Korks Invest.