Bakarí Jóhannesar Felixssonar, betur þekktur sem Jói Fel, hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Stundin greinir frá því að gjaldþrotabeiðni Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi verið samþykkt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Áður hefur verið greint frá því að lífeyrissjóðurinn hafi krafist gjald­þrota­skipta hjá bakarí­s­keðjunni vegna van­goldinna ið­gjalda sem fyrir­tækið hafði inn­heimt af launum starfs­fólks án þess að skila til sjóðsins.

Þá var bakaríum Jóa Fel í Borgartúni og Garðabæ nýlega lokað en Morgunblaðið hafði heimildir fyrir því að leigusali fyrirtækisins í Borgartúni hafi ákveðið að höfða útburðarmál gegn fyrirtækinu vegna vangoldinnar húsaleigu.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar vinnur Jói Fel nú að því að reyna að kaupa eignir þrotabúsins í slagtogi við aðra fjárfesta og halda áfram bakarísrekstri.

Þá greindi Vísir frá því í ágúst að þrír starfsmenn fyrirtækisins hafi hætt eða verið sagt upp eftir að hafa krafist þess að kjarasamningum yrði framfylgt, án árangurs.

Ekki náðist í Jóa Fel við vinnslu fréttarinnar.