Bain Capital, sem mun ef fram fer sem horfir leggja Icelandair til 8,1 milljarð króna í nýju hlutafé, á rætur að rekja til ráðgjafafyrirtækisins Bain & Co. sem er á meðal þekktustu ráðgjafafyrirtækja í heimi og er oft nefnt í sömu andrá og McKinsey og Boston Consulting Group.

Raunar var Bain & Co. stofnað af fyrrverandi meðeiganda Boston Consulting Group árið 1973 í því skyni að keppa við sinn gamla vinnustað. Fyrirtækið byggði á þeim tíma á þeirri sérstöðu að veiti ekki eingöngu ráðgjöf heldur aðstoðaði viðskiptavini við að koma henni til framkvæmda.

Árið 1984 stofnuðu meðeigendur Bain & Co. fjárfestingafélagið Bain Capital. Á meðal stofnenda var Mitt Romney , sem gerði tvær tilraunir til að verða forseti Bandaríkjanna, og stýrði hann félaginu um árabil. Romney seldi hlut sinn í Bain Capital um aldamótin.

Hugmyndin að Bain Capital var að fjárfesta í fyrirtækjum og nýta þekkingu starfsmanna Bain & Co. til að bæta rekstur þeirra. Bain Capital fjárfesti fyrst einvörðungu í óskráðum fyrirtækjum en frá árinu 1996 hefur það einnig fjárfest í fyrirtækjum sem skráð eru á markað. Bain Capital festir einnig kaup á skuldabréfum. Bain Capital Credit sá til að mynda tækifæri í því að kaupa portúgölsk og spænsk vandræðalán á árinu 2017.

Bain Capital, sem er með 1.200 starfsmenn, er með um 130 milljarða Bandaríkjadala í stýringu fyrir fjárfesta.

Fram kom í tilkynningu til Kauphallarinnar að Bain Capital eigi fjölbreytt eignasafn í flugtengdum rekstri. Sumarið 2020 keypti Bain Capital til að mynda Virgin Australia sem komið var að fótum fram vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Fram kom í tilkynningu til Kauphallarinnar í mars að Titan Aircraft Investments, sem sé samstarfsverkefni Bain Capital Credit og Titan Aviation Holdings, hafi keypt tvær Boeing 767 þotur af Icelandair í mars og leigi þær íslenska félaginu aftur til tíu ára. Breyta á farþegavélunum í fraktflugvélar vorið 2022.