Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segir að bætur frá Boeing vegna kyrrsetningar á flugvélum þeirra verði „klárlega peningar með einum eða öðrum hætti. Viðræður eru ekki hafnar en ég sé fyrir mér að hluti verði reiðufé. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig tjónið verður bætt.“ Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Úlfar í Markaðnum í dag.

Við lok annan ársfjórðungs mat Icelandair Group fjárhagstjón sitt vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvélanna á 50 milljónir dollara, jafnvirði 6,3 milljarða króna, að því er fram kom í uppgjöri.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði á fjárfestafundi í kjölfar uppgjörsins að raunhæft væri að sækja bætur frá flugvélaframleiðandanum Boeing fyrir allan þann kostnað sem kyrrsetningin hefur haft í för með sér, bæði beina og óbeina kostnaðinn.

Icelandair hefði getað tapað hátt í 1,1 milljón flugsæta vegna kyrrsetningar Boeing MAX-vélanna ef flugfélagið hefði ekki gripið til umfangsmikilla mótvægisaðgerða. Það er mat OAG sem er leiðandi greiningarfyrirtæki í flugiðnaði. Fréttablaðið sagði frá greiningunni um miðjan ágúst.

Icelandair réðst í mótvægisaðgerðir sem komu í veg fyrir stórfelldar niðurfellingar á flugi en þrátt fyrir það hafa orðið töluverðar raskanir á flugáætlun félagsins. Fimm vélar hafa verið leigðar yfir hásumarið en í október verður ein vél leigð. Leigusamningar tveggja þessara véla renna út í lok ágúst en þrjár verða í rekstri hjá félaginu út september.

Úlfar segir í viðtalinu að 25 prósent af flugáætlun sumarsins byggði á flugvélum sem höfðu verið kyrrsettar. „Það varð því að leigja flugvélar sem er kostnaðarsamt.

Margir gera sér ekki grein fyrir því hve víðtækar afleiðingar kyrrsetningin hafði á rekstur Icelandair. Viðskiptamódel Icelandair byggist á því að koma Evrópubúum sem ætla til Bandaríkjanna til Keflavíkur og ferja þá svo áfram á áfangastað. Hið sama gildir um Bandaríkjamenn og Kanadamenn sem ætla til Evrópu.

Það hefði verið mun auðveldara að takast á við kyrrsetninguna ef Icelandair væri að fljúga tíu sinnum á dag á tiltekinn áfangastað og tvær af vélunum væru kyrrsettar í stað þess að sækja farþega yfir hafið og dreifa þeim svo um Evrópu. Það er vegna þess að flugvélarnar sem þarf til eru misstórar og því er verið að endurraða farþegum í flugvélar sem eru ýmist stærri eða minni. Það flækir verkefnið.“