Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur bætt við sig sjö hundruð þúsund hlutum í Högum fyrir um 33 milljónir króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í smásölurisanum.

Með kaupunum, sem áttu sér stað á mánudag, fer eignarhlutur sjóðsins yfir tíu prósent, eftir því sem fram kemur í flöggunartilkynningu sem barst Kauphöllinni síðdegis í dag.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er þriðji stærsti hluthafi Haga með 10,05 prósenta hlut að virði tæplega 5,7 milljarða króna.

Hlutabréfaverð í Högum hefur fallið um 9,5 prósent undanfarinn mánuð og stendur nú í 46,5 krónum á hlut. Sé litið til síðustu tólf mánaða hefur gengi bréfanna hækkað um 6,4 prósent.

Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur auk þess bætt við sig í Arion banka og fer nú með rétt ríflega fimm prósenta hlut í bankanum, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa hans. Til samanburðar átti sjóðurinn 4,6 prósenta hlut í Arion banka í lok febrúar og 3,7 prósent í lok síðasta árs.

Gengi hlutabréfa í Arion banka hefur fallið um liðlega 37 prósent undanfarinn mánuð og 33 prósent síðustu tólf mánuði.