Lyfja­fyrir­tækið Al­vot­ech hyggst ráða til starfa hundrað vísinda­menn og sér­fræðinga, til við­bótar við þá 330 sem nú þegar starfa hjá fyrir­tækinu. Sex ný líf­tækni­lyf eru á leið á markað, en þau verða öll notuð til með­ferðar á sjúk­dómum á borð við gigt, psoriasis og krabba­mein.

„Þetta er auð­vitað gríðar­lega stórt skref að bæta við hundrað manns. Það er á­kveðið lang­hlaup að byggja upp líf­tækni­fyrir­tæki þannig að við erum smám saman að byggja upp inn­viðina okkar og gera okkur klár fyrir fram­tíðina,“ segir Hall­dór Krist­manns­son, talsmaður Al­vot­ech, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Fjárfestingar fyrir hátt í fjörutíu milljarða

Al­vot­ech hefur að­setur á Ís­landi, í Sviss og Þýska­landi, og er starfs­fólk fyrir­tækisins af tuttugu þjóð­ernum. Hinir hundrað sem ráðnir verða til fyrir­tækisins munu allir starfa hér á landi, eða í Vatns­mýri, þar sem Al­vot­ech er til húsa með há­tækni­setur sitt. Á­kveðið var að fara í ráðningarnar eftir að fyrir­tækið lauk 36 milljarða króna fjár­mögnun með er­lendum fjár­festum, auk þess sem japanska lyfja­fyrir­tækið Fuji Pharma gerðist hlut­hafi í fyrir­tækinu með sex milljarða fjár­festingu. Halldór segir jafnframt að hluthafar fyrirtækisins hafi lagt tugi milljarða til rekstursins og að heildarfjárfesting fyrirtækisins í dag í þróun líftæknilyfja, nýju hátæknisetri og klínískum rannsóknum sé ekki undir sextíu milljörðum króna.

Hann segir það afar já­kvætt að hægt sé að skapa frekari störf fyrir vísinda­fólk hér á landi, en að margt bendi þó til þess að hluti starfsmanna muni koma erlendis frá.

„Það er tals­vert fram­boð hér á landi af ungu og efni­legu fólki. Við erum fyrst og fremst að leita að raun­vísinda­bak­grunni, og það eru tals­vert margir með þann bak­grunn hér­lendis, en þegar kemur að reynslu­meira fólki úr þessum bransa þá gæti það fólk þurft að koma er­lendis frá. En þegar ég horfi á þessa hundrað þá verður þetta blanda af reynslu­boltum sem hafa unnið í sam­bæri­legum fyrir­tækjum sem hafa mikla reynslu, og síðan ungt og efni­legt fólk með minni reynslu og er til­búið til að taka þátt í þessari upp­byggingu, undir hand­leiðslu reyndari manna,“ segir Hall­dór.

Markaðssetning næsta skref

Hall­dór bendir á að fyrir­tækið hafi verið stofnað hér á landi árið 2013, og að þróunar­vinna sé komin á það stig að tíma­bært sé að huga að næstu skrefum.

„Við erum farin að undir­búa næsta fasa, sem er fram­leiðsla og markaðs­setning á þessum lyfjum, sem eru mörg af sölu­hæstu lyfjum í heiminum í dag, en fyrir­tækið hefur núna alls sjö lif­tækni­lyf í þróun ,“ út­skýrir Hall­dór, og bætir við að fyrir­tækið muni halda áfram frekari vexti.