Landbúnaðarsamtök í Wales segjast glíma við útflutningserfiðleika til Evrópu en lambakjöt gegnir lykilhlutverki fyrir velska efnahaginn. Talsmaður samtakanna segir einnig að bændur gegni mikilvægu hlutverki fyrir velskt samfélag og varðveislu á velskri tungu.
Owen Roberts, upplýsingafulltrúi Hybu Cig Cymru, segir í samtali við Fréttablaðið að Brexit hafi skapað margvíslega erfiðleika fyrir útflutning á velskum landbúnaðarvörum og að erfitt gæti reynst að finna staðgengil fyrir markaðsaðstoðina sem barst þaðan.
Landbúnaðarsamtökin Hybu Cig Cymru sjá um markaðssetninguna á velsku lamba- og nautakjöti og segir Owen að 35 prósent af öllu lambakjöti sem kemur frá Wales endi á mörkuðum erlendis. Stærsti hlutinn fer til Evrópu en eftirspurnin í Asíu, Mið-Austurlöndum og Bandaríkjunum fer hratt vaxandi.
„Landbúnaður er mun mikilvægari iðnaður fyrir velska efnahaginn en hann er fyrir þann enska. Rúmlega 200 þúsund manns starfa í velskum landbúnaði og er iðnaðurinn líka mjög mikilvægur fyrir ferðaþjónustu og varðveislu á velska tungumálinu. Velska er töluð sem fyrsta tungumál hjá fjórðungi allra íbúa í Wales en meðal velskumælandi íbúa eru bændur í meirihluta.“
Tekjur af landbúnaði skila í kringum sex milljörðum sterlingspunda inn í velska efnahaginn. Þar að auki er Wales staðsett hinum megin á hnettinum fjarri helstu samkeppnisaðilum sínum, sem eru Ástralía og Nýja-Sjáland. Owen segir að þessi landafræði setji Wales í góða stöðu þar sem framboð á velsku lambakjöti getur hlaupið í skarðið þegar árstíðabundinn skortur er á áströlskum og nýsjálenskum birgðum á alþjóðamarkaði.
Eftir Brexit hefur ríkt ákveðin óvissa um framtíðarhorfur á velskum landbúnaðarvörum en Wales fann sér nýlega nýjan markað. Í október í fyrra byrjaði Wales að flytja út lambakjöt til Bandaríkjanna eftir meira en þrjátíu ára bann, en Bandaríkin bönnuðu allan innflutning á bresku kjöti árið 1989 eftir útbreiðslu á kúariðu í Bretlandi.

„Eftir Brexit náðu Bretland og Evrópusambandið sem betur fer að forðast aðstæður þar sem tollar voru settir á breskar landbúnaðarvörur í samræmi við reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þeir tollar geta farið hátt yfir 40 prósent en evrópskir viðskiptavinir okkar sýndu okkur mikla þolinmæði og tryggð,“ segir Owen.
Hann segir hins vegar að útflutningur sé orðinn flóknari en hann var og þar að auki er iðnaðurinn orðinn viðkvæmari þar sem skortur er á bæði vinnuafli og birgðum sökum þess að Bretland er ekki lengur í Evrópusambandinu.
„Brexit hefur að vísu mótað einfaldari landbúnaðarstefnu fyrir Wales sem mun vonandi skýrast betur á næstu árum. Bændur sem fylgja umhverfisvænni stefnu verða til að mynda verðlaunaðir af ríkisstjórninni. Stuðningurinn sem kom hins vegar frá Evrópusambandinu til að aðstoða okkur við þróun og markaðssetningu er ekki lengur til staðar og það verður erfitt að finna staðgengil fyrir það.“
Bændur í Wales eru einnig farnir að fjárfesta í hátæknilausnum til að kindur þeirra fái sem mesta næringu úr grasinu sem fæðir þær. Samtökin vilja einnig að velskt kjöt sé tengt við ferskleika og er mikil áhersla lögð á uppruna vörunnar.
„Við höfum varið mörgum árum í að reyna að afnema þau höft sem voru sett á okkur og á seinustu fimm árum höfum við náð að koma okkur inn á miðausturlenska, japanska og bandaríska markaði. Ég tel að Mið-Austurlönd og Norður-Ameríka séu líkleg til að veita okkur mörg tækifæri á næstu árum,“ segir Owen.