Bæjarins beztu hækkuðu verð á pylsum síðastliðinn föstudag og kostar ein pylsa með öllu nú 550 krónur. Þetta staðfestir Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Bæjarins beztu, í samtali við Fréttablaðið.
Fréttablaðið greindi frá því þann 24. nóvember síðastliðinn að verðið þá hefði hækkað úr 470 krónum í 500 krónur. Hefur verðið á einni með öllu því hækkað um 80 krónur á tæpum átta mánuðum.
Guðrún skýrir verðhækkunina fyrst og fremst til hækkandi aðfangakostnaðar.
„Það sem fólk kannski áttar sig ekki á er það að allar vörur hækka til okkar líka. Þetta eru hækkanir frá birgjum sem hafa komið jafnt og þétt í vetur,“ segir Guðrún og bætir við að plastgjald hafi einnig áhrif. „Við erum að nota plast og eins og staðan er núna erum við ennþá með plaströr og plastlok,“ segir Guðrún og bætir við að verið sé að finna lausn á því þessa dagana.
Bæjarins beztu reka nú fjóra sölustaði með pylsur: Tryggvagötu á móti Kolaportinu, Smáralind, Skeifunni og í Breiddinni hjá verslun Byko. Um er að ræða eitt elsta fyrirtæki miðborgarinnar, en fyrsti pylsuvagninn var opnaður árið 1937.