Bæjarins beztu hækkuðu verð á pylsum síðast­liðinn föstu­dag og kostar ein pylsa með öllu nú 550 krónur. Þetta stað­festir Guð­rún Krist­munds­dóttir, eig­andi og fram­kvæmda­stjóri Bæjarins beztu, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Frétta­blaðið greindi frá því þann 24. nóvember síðast­liðinn að verðið þá hefði hækkað úr 470 krónum í 500 krónur. Hefur verðið á einni með öllu því hækkað um 80 krónur á tæpum átta mánuðum.

Guð­rún skýrir verð­hækkunina fyrst og fremst til hækkandi að­fanga­kostnaðar.

„Það sem fólk kannski áttar sig ekki á er það að allar vörur hækka til okkar líka. Þetta eru hækkanir frá birgjum sem hafa komið jafnt og þétt í vetur,“ segir Guð­rún og bætir við að plast­gjald hafi einnig á­hrif. „Við erum að nota plast og eins og staðan er núna erum við enn­þá með plast­rör og plast­lok,“ segir Guð­rún og bætir við að verið sé að finna lausn á því þessa dagana.

Bæjarins beztu reka nú fjóra sölu­staði með pylsur: Tryggva­götu á móti Kola­portinu, Smára­lind, Skeifunni og í Breiddinni hjá verslun Byko. Um er að ræða eitt elsta fyrir­tæki mið­borgarinnar, en fyrsti pylsu­vagninn var opnaður árið 1937.