Bæjarins bestu hafa hækkað verðið á einni pylsu með öllu í 500 krónur frá og með deginum í dag. Um er að ræða hækkun upp á 6,4 prósent, en þar til í dag kostaði ein með öllu 470 krónur. Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Bæjarins bestu segir að hækkandi aðfangakostnaður en einkum og sér í lagi hækkandi launakostnaður knýji á verðhækkunina.

„ Við höfum ekki hækkað verð í mörg ár en neyðumst til þess núna. Launakostnaður er kominn vel yfir 40 prósent af tekjum," segir Guðrún, sem bætir við að aðfangakostnaður hafi einnig hækkað töluvert á síðustu árum.

Bæjarins bestu reka fjóra sölustaði með pylsur. Upprunaleg og frægust staðsetninga er við Tryggvagötu á móti Kolaportinu, en einnig eru sölustaðir í verslunum Hagkaups í Smáralind og Skeifunni. Einn sölustaður er svo í BYKO Breiddinni. Fyrirtækið opnaði fimmta sölustaðinn sumarið 2019 á Ráðhústorginu á Akureyri, en þeim rekstri var hætt í október sama ár.