Áætlað heildarverðmæti eigna sem Aztiq er fjárfest í og rekur er um 700 milljarðar króna. Þetta segir Róbert Wessman sem leiðir Aztiq, forstjóri Alvogen og stjórnarformaður Alvotech.
Aztiq fjárfestir eingöngu fyrir eigin reikning en rekur ekki fjárfestingasjóði. Fjárfestingafélagið annast rekstur þeirra félaga sem það fjárfestir í. Félagið var stofnað árið 2009 og leggur höfuðáherslu á fjárfestingar í lyfja- og heilsutengdum iðnaði.
Í hverju hefur Aztiq fjárfest?
„Í Alvogen Mið- og Austur-Evrópu, Alvogen Bandaríkjunum, Almatica, Almaject, Alvotech, Lotus og Adalvo. Við höfum jafnframt fjárfest í fasteignum tengdum lyfjageira auk þess að taka þátt í minni fasteignaverkefnum sem félaginu hafa þótt vera aðlaðandi eins og til dæmis Vistfélaginu Þorpið.“
Hvernig er eignarhaldi Aztiq háttað?
„Við erum með fjölda fagfjárfesta í félaginu. Ég er leiðandi fjárfestir í Aztiq en til viðbótar við fagfjárfesta eru lykilstarfsmenn Aztiq jafnframt fjárfestar í félaginu,“ segir Róbert.
Í lok nóvember var upplýst að Aztiq og Innobic hefðu keypt félag af Alvogen sem á leiðandi hlut í Lotus Pharmaceutical sem er skráð á hlutabréfamarkað í Taívan og Adalvo, sem er alþjóðlegt viðskiptaþróunarfyrirtæki, að fullu. Kaupverðið var um 475 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 62 milljarða króna.
Alvogen fjárfesti í Lotus árið 2014 til að byggja upp sérhæfða aðstöðu í Taívan til að þróa og framleiða krabbameinslyf sem hægt væri að selja á hagstæðara verði en frumlyfin. „Vöxtur Lotus hefur verið mikill. Tekjurnar vaxið um 25 prósent á ári og hagnaður fyrir fjármagnslið og afskriftir (EBITDA) um 40 prósent að jafnaði á ári,“ segir hann.
Róbert segir að Aztiq eigi 40 prósent í félaginu sem var keypt af Alvogen á dögunum en Innobic, sem er fjárfestingafélag PTT í heilsugeiranum, 60 prósent. Innobic hafi góða þekkingu á mörkuðum í Asíu og innviðum þar.
„Innobic er hins vegar með takmarkaða þekkingu á mörkuðum utan Asíu, mörkuðum eins og í Bandaríkjunum og í Evrópu. Innobic óskaði því eftir því að Aztiq, sem hefur sérhæft sig í að byggja upp og reka alþjóðleg lyfjafyrirtæki, myndi halda áfram að annast rekstur Lotus í að minnsta kosti í þrjú ár,“ segir Róbert sem bendir á að Aztiq hafi meðal annars byggt frá grunni starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu sem var seld í árslok 2019 fyrir 745 milljónir Bandaríkjadala. „Innobic treystir því á að Aztiq leiði vöxt Lotus og Adalvo,“ segir hann.
Róbert segir aðspurður að Aztiq fái ákveðna umbun fyrir að reka hið nýkeypta félag. Það sé í samræmi við það sem gerist hjá öðrum sjóðum sem annist fjárfestingar eins og á við í þessu tilviki. Mikill vilji sé til að halda samstarfinu áfram af beggja hálfu að þremur árum liðnum.
Hvernig sérðu Aztiq þróast á næstu árum?
„Eignirnar sem við höfum fjárfest í núna eru mjög spennandi og geta skilað góðri ávöxtun á næstu árum. Okkar áherslur eru því að halda áfram að styrkja rekstur þeirra fyrirtækja sem við erum fjárfestar í enn frekar næstu árin.
Ég sé fyrir mér að við mögulega stækkum Aztiq sem fjárfestingafélag þegar fram líða stundir en í dag er áherslan á að tryggja að okkar eignir skili fjárfestum góðri ávöxtun.“
Róbert segir að Aztiq hafi aukið hlut sinn í Lotus og Adalvo. „Sennilega er þetta ein af stóru fjárfestingum okkar á næstu misserunum. Við viljum ekki færast of mikið í fang,“ segir hann og nefnir að Alvotech sé á spennandi tímamótum.
„Aztiq styður mikið við rekstur Alvotech – þar sem ég er starfandi stjórnarformaður – og mun gera áfram næstu misseri. Við hófum jafnframt uppbyggingu á Almatica í Bandaríkjunum árið 2017. Almatica þróar, framleiðir og selur betrumbætt lyf sem tengjast þunglyndi, kvíða og öðrum geðröskunum. Við erum komin með fyrstu lyfin á markað í Bandaríkjunum og því eru mjög spennandi tímar fram undan hjá félaginu næstu árin.
Meðal annars til að styðja við uppbyggingu á sölu og markaðsstarfi Almatica og efla enn frekari þróunarstarfið var hlutafé Alvogen í Bandaríkjunum aukið fyrr á árinu um rúm 17 prósent eða um rúma tíu milljarða. Aztiq tók alla þá aukningu enda eru mjög spennandi tímar fram undan hjá félaginu.“
Alvotech fær tæplega 60 milljarða fjármögnun
Líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech mun afla um 450 milljóna Bandaríkjadala, tæplega 60 milljarða króna, í tengslum við samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. Að samruna loknum verður Alvotech komið í bandarísku kauphöllina Nasdaq.
„Þessir fjármunir verða annars vegar nýttir í þróun og klínískar rannsóknir á nýjum lyfjum og í að koma nýjum lyfjum á markað. Meginstarfsemi Alvotech er á Íslandi, bæði þróun og framleiðsla,“ segir Róbert og bendir á að á Íslandi starfi 500 manns en 200 í öðrum löndum.
Róbert staðfestir að horft sé til tvíhliðaskráningar á Íslandi. „Félagið er íslenskt, með starfsemi á Íslandi, fjöldamarga starfsmenn hér á landi og stofnandinn er frá Íslandi. Ræturnar eru mjög sterkar. Því er áhugi á því að gefa íslenskum fjárfestum líka kost á að eiga viðskipti með félagið á Íslandi í framtíð og góð leið til þess er skráning á Íslandi.“
Róbert segir að það skipti sig máli að byggja upp þekkingu á Íslandi og með það að augnamiði var ákveðið að Alvotech væri staðsett í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri. „Í kjölfarið hefur heildarfjárfesting í Alvotech á Íslandi verið yfir 100 milljarðar eða sem nemur einum og hálfum nýjum Landspítala sem er stærsta fjárfesting íslenska ríkisins á síðustu árum,“ segir hann.
„Við reiknum með að Alvotech verði ein af lykilstoðunum í gjaldeyrisöflun Íslands þegar fram líða stundir og að Alvotech verði einn af stærri vinnustöðum landsins og án efa einn stærsti skattgreiðandi á Íslandi,“ segir hann.