Árið fer ekki vel af stað í ávöxtun lífeyrissjóða hér á landi vegna lækkunar á gengi hlutabréfa um allan heim – og stefnir allt í að ávöxtun þessa árs verði undir meðalári. Alheimshlutabréfavísitalan MSCI AC hefur lækkað um 17% frá áramótum. Ávöxtun síðustu þriggja ára hefur verið mjög góð hjá lífeyrissjóðunum og nam til dæmis raunávöxtun allra lífeyrissjóðana á Íslandi um 10,2% á síðasta ári.

Um þessi mál er rætt í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem verður á dagskrá Hringbrautar í kvöld, en gestur Jóns í þættinum er Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Árið 2021 var ár hlutabréfa og góðrar ávöxtunar íslenskra lífeyrissjóða. Þar vóg þungt hve hlutabréfamarkaðir um allan heim hækkuðu mikið. Þannig hækkaði til dæmis Úrvalsvísitalan í Kaupöll Íslands um 36,4% á síðasta ári.

Í blaðinu Fjármál og ávöxtun sem Jón gaf út nýlega er meðal annars yfirlit yfir raunávöxtun nokkurra af helstu sérseignasjóðum lífeyrissjóðanna á síðasta ári. Þar kemur fram að Ævisafn 1 hjá Almenna skilaði hæstri ávöxtun séreignasjóða lífeyrissjóðanna á síðasta ári; 20,7% nafnávöxtun og 15,1% raunávööxtun. Nú er nafnávöxtun Ævisafns 1 frá áramótum um -7,7%.

(Hér má nálgast blaðið sem flettirit: https://issuu.com/jonghauksson/docs/fja_rma_l_a_vo_xtun-5.tbl_2022_4_?fr=sYTMwNzM0MTMzMzQ)

„Árið fer ekki vel af stað,“ segir Gunnar í þættinum. „En það er þannig að ávöxtun síðustu þriggja ára hefur verið einstaklega góð en einnig ef við lítum yfir síðustu tíu ár þá var Ævisafn 1 með í kringum 8% raunávöxtun á ári á þessu tímabili. Skýringin á góðri ávöxtun á liðnum árum eru lágir vextir og lækkandi vextir hafa í för með sér að eignaverð hækkar; hlutabréf, skuldabréf, fasteignir, og það hefur skilað mjög góðri ávöxtun. Á þessu ári hafa aðstæður breyst; vextir hafa farið hækkandi vegna aukinnar verðbólgu og í febrúar hófst stríð í Úkraínu sem hefur aukið á óvissu á mörkuðum,“ segir Gunnar.

„Ég sagði hins vegar þegar við kynntum ávöxtunin á síðasta ári að við værum búin að vera lengi með ávöxtun langt yfir sögulegu meðaltali – og kannski að einhverju leyti gengið á ávöxtun í framtíðinni. En ég benti jafnframt á að gott væri að búa sig undir það að ávöxtun á næstu árum gæti orðið undir þessu sögulega meðaltali.“

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.