Ávöxtun vogunarsjóðarins Coatue Management, sem stýrt er af Philippe Laffont, hefur verið 52 prósent það sem af er ári eftir þóknanir. Góðan árangur má rekja til kaupa í rafbílaframleiðandanum Teslu og skortsölu á Wirecard, þýsks fyrirtækis sem uppvíst var um bókhaldssvik.

Laffont er í hópi vogunarsjóðsstjóra sem stigu sín fyrstu skref hjá Tiger Management og hafa náð hafa eftirtektarverðum árangri á eigin spýtur.

Coatue Management hefur notið góðs af áherslu sinni á tæknifyrirtæki í ár en slík fyrirtæki hafa hækkað hvað mest í COVID-19 heimsfaraldrinum, segir í frétt Financial Times.

Sjóðurinn er með meira en 11 milljarða dollara í stýringu.

Mega muna sinn fífil fegurri

Vogunarsjóðir, vigtað eftir stærð, hafa tapað að meðaltali um 4,5 prósent frá ársbyrjun til októberloka. Ávöxtun vogunarsjóða sem einblína á hlutabréf hefur einungis verið þrjú prósent á tímabilinu en alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir hafa hækkað um meira en tíu prósent á sama tíma.

Vogunarsjóðir sem fjárfesta í tæknifyrirtækjum hafa hækkað um meira en 17 prósent. Eins og fyrr segir hefur Coatue Management vegnað mun betur á tímabilinu.

Taka fé úr vogunarsjóðum

Fjárfestar hafa nettó tekið meira en 100 milljarða úr vogunarsjóðum það sem af er ári, um helmingur fjárhæðarinnar var tekinn úr sjóðum sem bæði kaupa og skortselja hlutabréf.

Tesla hefur hækkað um næstum því 600 prósent það sem af er ári.

Wirecard upplýsti snemma á árinu að fyrirtækið væri ekki með 1,9 milljarða evra í reiðufé, eins og uppgjör höfðu sagt til um. Misræmi má rekja til bókhaldssvika. Við upphaf árs var gengi Wirecard um 110 evrur á hlut en nú er það tæplega 50 sent.

Coatue fjárfesti einnig í PayPal sem hefur hækkað um næstum 100 prósent það sem af er ári. Sömuleiðis hefur vogunarsjóðurinn fjárfest í Zoom.

Coatue á stóran hlut í Disney sem hefur dregið ávöxtunina niður.