Sprotafyrirtækið Avo hefur tryggt sér þrjár milljónir dollara í fjármögnun. Það samsvarar 419 milljónum íslenskra króna. Fjárfestahópurinn er leiddur af bandaríska vísisjóðnum GGV Capital með þátttöku Heavybit og Y Combinator. Um er að ræða þekkta sjóði í Kísildalnum með sérþekkingu í að fjárfesta í ört vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðirnir hafa áður fjárfest í til dæmis Airbnb, TikTok og Alibaba. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Til viðbótar við fyrrnefnda fjárfesta tóku reyndir englafjárfestar frá Kísildal þátt í fjármögnunni, sem og íslensku vísisjóðirnir Brunnur og Crowberry.

Stofnendur Avo, Stefanía Bjarney Ólafsdóttir framkvæmdastjóri og Sölvi Logason og , stýrðu áður gagnagreind í Plain Vanilla Games við gerð leikjarins QuizUp. Þar sáu þau um greiningarsvið, vöxt, og vöruþróun.

Avo er næsta kynslóð af gagnastjórnun sem umbyltir skilningi fyrirtækja á notendaupplifun. Avo gerbreytir hvernig vörustjórar, forritarar, og gagnasérfræðingar skipuleggja, skrá og stjórna gögnum sem fyrirtæki nota til að greina og skilja upplifun notenda í stafrænum vörum.

Avo skilar forriturum og vöruteymum níu af hverjum tíu klukkustundum sem þau eyddu áður í uppfærslu og lagfærslu á gögnum.

Patreon er markaðstorg þar sem velunnarar geta gerst mánaðarlegir áskrifendur að framleiðslu skapandi fólks, eins og til dæmis hlaðvörpum, greinum eða myndböndum. Vöruteymi Patreon segir í TechCrunch að sú vinna sem fór í að uppfæra eða lagfæra gögn, hafi með Avo farið úr fjórum dögum fyrir hverja vöruuppfærslu niður í eina klukkustund.

GGV Capital leiðir fjármögnunina og er með um sex milljarða dollara eða 840 milljarða króna í stýringu. Fyrirtækið hefur fjárfest ofurvaxtafyrirtækjum á borð við Slack, TikTok og Alibaba.

Heavybit og Y Combinator fjárfestu einnig í þessari umferð. Heavybit sérhæfir sig í að fjárfesta í forritaralausnum og fjárfestu meðal annars snemma í Stripe, CircleCI and PagerDuty, sem öll hafa breytt starfsumhverfi hugbúnaðarteyma.

Y Combinator fjárfesti upprunalega í Avo í byrjun 2019 og fylgdi fjárfestingunni eftir með auknu fjármagni í þessari lotu, en Y Combinator er einn þekktasti nýsköpunarhraðall í heimi eftir að hafa fjárfest meðal annars í „einhyrningum” á borð við Airbnb, Stripe og Dropbox, sem hafa öll verið metin á tugi milljarða Bandaríkjadollara.

„Við erum spennt að halda áfram þróun Avo til að auka skilvirkni hjá flottustu vöruteymum heims. Fjármögnunin frá GGV Capital, Heavybit og Y Combinator gerir okkur kleift að stækka teymið hraðar á næstu vikum og mánuðum, meðal annars í vöruþróun, sölu og markaðssetningu og að fá til liðs við okkur frábæra leiðtoga – bæði á Íslandi og erlendis.,“ segir Stefánía.