Friðrik Jónsson, formaður BHM, segir að fjárhagslegur ávinningur af menntun fari sífellt minnkandi og að háskólamenntaðir hafi setið eftir þegar kemur að launaþróun.

„Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið því lífskjarasamningarnir voru sniðnir til þess að vera hagfelldir fyrir þá lægstlaunuðu,“ segir Friðrik og bætir við að áhugavert sé að skoða þróun kaupmáttar undanfarinna ára.

„Ef við skoðum kaupmáttaraukningu undanfarinna ára og horfum til ársins 2015 þegar lögð var áhersla á krónutölusamninga. Þá frá janúar 2015 til janúar 2022 ef við berum saman BHM og BSRB hjá ríkinu þá hefur kaupmáttarvísitalan fyrir BSRB hækkað um 53 prósent meðan hún hefur hækkað um 36 prósent hjá BHM,“ segir Friðrik og bætir við að það sé ekki ásættanlegt að menntaðir hafi setið jafn mikið eftir og raun ber vitni, þó ánægjulegt sé að hans mati að markmiðið um leiðréttingu kjara þeirra lægstlaunuðu hafi gengið eftir.

Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Aðsend mynd.

„Það hlýtur einhvers staðar undan að láta því nú er staðan þannig að ávinningur menntunar á Íslandi var lágur fyrir en fer nú sífellt minnkandi.“

Fram kemur í greiningu Íslandsbanka að áratugur samfelldrar kaupmáttaraukningar sé á enda. Kaupmáttur í júnímánuði var 0,7 prósent minni en fyrir ári síðan, þrátt fyrir ríflega 8 prósenta hækkun meðallauna. Undanfarin misseri hefur kaupmáttaraukning aukist mest hjá láglaunahópum en minna hjá þeim sem höfðu hærri laun þegar lífskjarasamningarnir tóku gildi.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að langmestar líkur séu á því að kaupmáttur muni rýrna út árið og sú staðreynd að kjarasamningar losni í haust flæki málið. Verðlag muni hækka jafnt og þétt og gera megi ráð fyrir milli 3 og 4 prósenta hækkun á vísitölu neysluverðs til áramóta.

„Auðvitað er þessi tröppugangur alltaf til staðar, það er að segja að laun hækka og í ársbyrjun kemur kippur í kaupmáttinn hjá fólki. Við erum allavega ekki að sjá viðsnúning í þessu út árið.“

Friðrik segir að þessi staða geti leitt af sér tvíþættar afleiðingar. Annars vegar dragi þetta úr hvata einstaklingsins til að sækja sér menntun og auki hins vegar hvatann fyrir menntafólk til þess að flytja utan að námi loknu þar sem menntun sé metin meira að verðleikum.

„Lífskjarasamningarnir voru millistéttinni og efri millitekjuhópum ekkert sérlega hagfelldir. Í lífskjarasamningunum voru tvöfaldar aðgerðir. Annars vegar var markmið að hækka lægstu launin og hins vegar var farið í skattkerfisbreytingar til að búa til frekara skattalegt hagræði fyrir þau lægstlaunuðu. Þessar breytingar voru í reynd kostaðar af millitekjuhópunum.“

Jón Bjarki segir að ef rýnt sé í tölurnar komi bersýnilega í ljós að lífskjarasamningarnir hafi skilað því að kaupmátturinn hafi vaxið töluvert hraðar hjá láglaunafólki heldur en hjá þeim sem hærri laun hafa eins og lagt var upp með.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

„Ef við horfum ár aftur í tímann þá er kaupmátturinn heldur meiri hjá þeim sem eru með lágar tekjur á meðan þeir sem eru með hærri tekjur hafa séð kaupmáttinn rýrna.“

Aðspurður hvort staðan sé góð í sögulegu samhengi þegar kemur að kaupmætti launa segir Jón Bjarki svo vera.

„Það er auðvitað mikilvægt að setja hlutina í það samhengi að þetta bakslag í kaupmættinum núna kemur eftir myndarlegan kaupmáttarvöxt. Við höfum séð kaupmátt launa á Íslandi rísa töluvert hraðar heldur en hefur gengið og gerst í löndunum í kringum okkur. Þó bakslag sé núna þá eru íslensk heimili í góðri stöðu hvað það varðar.“

Friðrik segir jafnframt að þessi staða skapi ákveðinn vanda þegar kemur að komandi kjaraviðræðum.

„Síðan má ekki gleyma að verðbólgan leggst á okkur af fullum þunga. Hún er komin upp undir 10 prósent þannig að kaupmáttaraukningin í þessari kjaralotu eins og hún lá fyrir í janúar er í raun horfin. Ef við ætlum aðeins að hafa það markmið að halda kaupmættinum þá erum við að tala um töluverðar prósentur.“

Friðrik bætir við að komandi kjaraviðræður verði töluverð áskorun.

„Ég hef sagt það síðan ég tók við sem formaður BHM að mér hugnist ekki krónutöluhækkanir. En við erum heildarsamtök og við komum ekki að samningaborðinu með beinum hætti, það gera stéttarfélögin. En ég reyni að leiða umræðuna og ég tel mikilvægt að við höfum skynsemi og sanngirni að leiðarljósi í komandi kjaraviðræðum.“

Friðrik segir að við búum nú við mikið óvissuástand. Það sé styrjöld í Evrópu, verðbólga sé víðar en hér á landi og við erum að jafna okkur á aðfangavandræðum eftir Covid.

„Því tel ég mikilvægt að við forðumst að fara í skotgrafirnar, sérstaklega ef þær eru illa skilgreindar. Ég er alls ekki talsmaður átakanna, átakanna vegna. Við þurfum að finna efnislegar leiðir til lausna. Greina vandann og finna mögulegar leiðir til lausna. Það er hagur okkar allra að finna farsæla lendingu sem flestir geta sætt sig við.“