Auður Björgólf­s Thors Björgólfs­sonar fjár­fest­is er metinn á 2,1 milljarð dollara, jafnvirði 255 milljarða króna, að því er fram kemur í bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes. Hann talinn skipa 1.116 sætið yfir ríkasta fólk heims og fer upp um 99 sæti á milli ára.

Björgólfur Thor á meðal annars í pólska fjarskiptafyrirtækinu Play sem skráð var á hlutabréfamarkað árið 2017, chílenska fjarskiptafyrirtækið WOM og hlut í hinu íslenska NOVA.

Hann hefur einnig fjárfest í rafmyntum og nýsköpunarfyrirtækjum á borð við Zwift, BeamUp og Derliveroo, segir í frétt Forbes.

Björgólfur Thor efnaðist á því að stofna brugghúsið Bravo í Rússlandi og seldi það til Heineken árið 2002.

Forbes rifjar upp að hann hafi tapað nánast öllum auðævum sínum í fjármálahruninu árið 2008 og hafi orðið að leita leiða til að greiða niður skuldir sem námu meira en einum milljarði dollara.

Árið 2006 taldi Forbes að hann skipaði 350 sætið yfir auðugasta fólk í heimi og taldi að virði eigna hans væri 2,2 milljarðar dollara.

Forbes segir að hann sé eini milljarðamæringur Íslands talið í dollurum.