Áætlaður byggingarkostnaður nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn í Reykjavík er 11,8 milljarðar króna. Sá peningur fer í framkvæmdakostnað, lóðarverð, lóðarframkvæmdir ásamt kostnaði við eftirlit, hönnun og sameiginlegar framkvæmdir á svæðinu. Landsbankinn keypti lóðina á uppboði árið 2014 fyrir 957 milljónir króna.

Þetta kemur fram á vef Alþingis í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni þingmanni Miðflokksins um fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Fjármála- og efnahagsráðuneytið byggði svar sitt á upplýsingum og sjónarmiðum frá Bankasýslu ríkisins þar sem ráðherra hefur ekki aðkomu að ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda Landsbankans.

Banka­sýsla rík­is­ins, sem fer með hlut rík­is­sjóðs í Lands­bank­anum, segist ekki hafa haft neina aðkomu að ákvarðanatökunni um að reisa nýjar höfuðstöðvar. „Þetta er fjárfesting til framtíðar,“ sagði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningu árið 2018.

Landsbankinn nýtir 60 prósent hússins

Í svari Landsbankans til ráðherrans er tekið fram að það eigi við um alla bygginguna, en kostnaður við þann hluta húsnæðisins sem bankinn mun nýta er áætlaður 7,5 milljarður.

„Niðurstaðan var sú að Austurhöfn væri ákjósanlegasti kosturinn.“

„Bankinn mun flytja starfsemi úr 12 húsum í miðborginni ásamt stærstum hluta Borgartúns 33 undir eitt þak í nýju húsi. Því fylgir mikið hagræði og er gert ráð fyrir að árlegur sparnaður bankans af þeim sökum nemi um 500 millj. kr., einkum vegna lækkunar á húsaleigu og kostnaði við rekstur og viðhald húsnæðis, auk þess sem verkefnamiðuð vinnuaðstaða í nýja húsnæðinu mun gefa kost á aukinni skilvirkni í starfseminni.“

Landsbankinn mun nýta 60 prósent hússins, eða um 10.000 fermetra, en leigja frá sér eða selja 40 prósent hússins, eða um 6.500 fermetra.Forsvarsmenn bankans segja að bankastörfum muni fækka í framtíðinnni en ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um þróun starfsmannafjölda næstu árin.

Núverandi húsnæði Landsbankans óhentug og óhagkvæm

Birgir spurði einnig um rök ráðherra um að byggja á þessum stað og hvort hann taldi að staðsetningin sé rétt með tilliti til bankaþjónustu framtíðar og þróun starfsmannafjölda. Í svari fjármálaráðuneytis er ítrekað að fjármálaráðherrann hafi ekki aðkomu að stjórn bankans. Greining og ákvörðun um þörf og staðsetningu húsnæðis undir hefðbundna starfsemi Landsbankans væri alfarið á höndum bankaráðs.

„Bankasýsla ríkisins hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við bankaráðið að mikilvægt sé fyrir Landsbankann að draga úr fjárhagslegri áhættu vegna byggingar nýrra höfuðstöðva.“

Landsbankinn segir í svari sínu að núverandi húsakynni bankans í miðborg Reykjavíkur séu bæði óhentug og óhagkvæm. Bankinn hafi skoðað ýmsa kosti í húsnæðismálum í samvinnu við ráðgjafarafyrirtækið KPMG árið 2017 og hafi í kjölfarið tekið ákvörðun um að byggja nýtt hús. Þeir þættir, sem horft var til, voru hagkvæmni, verðgildi hússins til framtíðar, samgöngur, staðsetning, skipulagsmál, sveigjanleiki húsnæðis og þjónusta og mannlíf í nágrenninu. „Niðurstaðan var sú að Austurhöfn væri ákjósanlegasti kosturinn,“ segir í svari Landsbankans.

Byggingarréttur á lóðinni er 16.500 fermetrar, þar af 2.000 fermetrar í kjallara, auk tæknirýma og sameiginlegs bílakjallara. Bankinn ætlar að nýta 10.000 fermetra, eða 60 prósent hússins. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sá hluti hússins sem bankinn mun ekki nýta verði seldur eða leigður en bankinn reiknar með að sala/leiga standi undir stofnkostnaði við þann hluta hússins.

Mikilvægt að Landsbankinn dragi úr fjárhagslegri áhættu

Birgir spurði ráðherra hvort hann teldi bygginguna skynsamlega fjárfestingu út frá sjónarmiði handhafa hlutabréfs ríkissjóðs í bankanum. Þá vildi hann vita hvort fyrirhug framkvæmd hafi verið gerð með samþykki Bankasýslu ríkisins.

„Ráðuneytið hefur í samstarfi við stofnanir þess metið tækifæri til að auka hagkvæmni í húsnæðismálum ríkisstofnana. Niðurstaða þess mats er að sameining starfsemi í nýju og sveigjanlegu húsnæði geti falið í sér mikil tækifæri til hagræðingar og mótunar nútímalegs vinnuumhverfis. Ekki er ástæða til að ætla annað en að sömu sjónarmið geti átt við um nýjar og sameiginlegar höfuðstöðvar Landsbanka. Þrátt fyrir þetta er ráðuneytið ekki í aðstöðu til að leggja heildstætt mat á áform Landsbanka enda er slíkt mat eins og áður hefur komið fram alfarið á ábyrgð bankaráðs Landsbankans.“

Í svari frá Bankasýslu ríkisins kemur fram að Bankasýslan hafi fengið upplýsingar um það á hverju ákvörðun bankaráðsins byggðist.

„Bankasýsla ríkisins hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við bankaráðið að mikilvægt sé fyrir Landsbankann að draga úr fjárhagslegri áhættu vegna byggingar nýrra höfuðstöðva, m.a. í ljósi þess að bankinn muni einungis nýta hluta af þeirri byggingu, sem verið er að reisa við Austurhöfn,“ segir í svari Bankasýslunnar.

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíðarnýtingu Austurstrætis 11, núverandi höfuðstöðvar bankans. „Húsið hefur menningarlegt og sögulegt gildi og bankinn mun gefa sér tíma til að finna leiðir til að húsið fái nýtt hlutverk og geti notið sín til framtíðar,“ segir í svari Landsbankans.