Pantanabók Marels stóð í 455,3 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs og stækkaði um tæplega 10 prósent milli ára, en lækkaði þó lítillega frá lokum fjórða ársfjórðungs síðasta árs. Tekjur jukust einnig um 10 prósent á fjórðungnum milli ára og voru 334 milljónir evra, en þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Marels sem birt var laust fyrir klukkan 18 í kvöld.

Hagnaður fyrirtækisins eftir skatta jókst um 58 prósent milli ára og var 21,2 milljónir evra. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta var 38 milljónir evra, sem svarar til 11,4% af tekjum. Á sama tímabili í fyrra var sama hlutfall 8,4 prósent.

„Árið byrjaði vel með 369 milljónir evra í pantanir, samanborið við 352 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs sem var metsala á þeim tíma. Takturinn er þó annar, þar sem 2020 byrjaði af krafti og hægði svo á í mars samhliða heimsfaraldri, á meðan þetta ár fór hægt af stað en styrktist verulega með mikilli sölu í mars og áframhaldandi góðum horfum," er haft eftir forstjóranum Árna Oddi Þórðarsyni.

Mikill gangur í kjötiðnaði

„Við höfum hraðað fjárfestingum og fjölgað starfsfólki til að styrkja enn frekar markaðssókn og þjónustu um heim allan. Á síðustu mánuðum höfum við haldið áfram að þróa og kynna til leiks nýjar lausnir sem styðja við þær breytingar sem eiga sér stað á neytendamarkaði. Pantanir fyrir staðlaðar vörur og varahluti voru sterkar í öllum iðnuðum. Einnig voru metpantanir fyrir stærri verkefni hjá kjötiðnaði, þar sem við náðum meðal annars stórum samningum í Kína og Brasilíu, en pantanir fyrir stærri verkefni hjá alifuglaiðnaði og fiskiðnaði voru dræmari í fjórðungnum. Pípan er góð fyrir alla iðnaði sem gefur góð fyrirheit um pantanir fyrir næstu fjórðunga," er jafnframt haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni.

Marel stefnir að meðalvexti upp á 12 prósent á ári hverju á tímabilinu 2017 til 2026. Skuldahlutfall fyrirtækisins var um 0,8 sinnum hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir, en stefna fyrirtækisins er að þetta hlutfall sé 2 til 3.

Því má reikna með að Marel ráðist í fleiri yfirtökur á fyrirtækjum á næstunni. „ Við héldum áfram að styrkja framboð okkar af heildarlausnum með kaupum á fyrirtækjum sem þjónusta alifugla- og fiskiðnað. Marel stendur sem fyrr við metnaðarfull markmið sín til meðal og lengri tíma, með áframhaldandi vexti og virðisaukningu, þó gera megi ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga," er segir Árni Oddur.