Hlutabréf Arion banka hafa hækkað um 2,25 prósent í 764 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi í Kauphöllinni. Hækkunina má meðal annars rekja til þess að auknar líkur eru á því að bankanum verði leyft að greiða út arð á næsta ári.

Evrópskum bönkum verður leyft að greiða út arð á næsta ári ef þeir geta sannfært eftirlitsstofnanir um að efnahagsreikningar þeirra geti staðið af sér áföll vegna kórónukreppunnar. Þetta hefur Financial Times eftir Yves Mersch, yfirmanni hjá Seðlabanka Evrópu. Vísaði hann meðal annars til óvissa um hvort hægt væri að framfylgja banninu á næsta ári.

Þegar kórónakreppan skall á heimsbyggðinni voru viðbrögð eftirlitsstofnana víða um heim að leggja tímabundið bann við arðgreiðslum eða gefa út tilmæli um að fresta þeim. Seðlabankinn gaf íslenskum bönkum þess konar tilmæli og hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gefið í skyn að bankar geti þurft að bíða með arðgreiðslur þar til ljóst sé hversu mikið tap þeir þurfi að taka á sig vegna kórónukreppunnar.

Eiginfjárhlutfall Arion reiknað á áhættugrunni er 27,6 prósent en krafa Seðlabankans er að eiginfjárhlutfallið sé 18,4 prósent.

„Tæknilega þýðir það að bankinn er með 65 milljarða króna í umfram eigið fé,“ sagði í síðasta verðmati Jakobsson Capital á bankanum. „Væntanlega væri það þó ekki skynsamleg ráðstöfum að greiða allt umfram eigið fé út en bankinn ætti að geta hæglega greitt hluthöfum 41 milljarð króna.“

Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion, sagði í umfjöllun Markarðins í síðustu viku að eiginfjárhlutföll Arion banka væru líklega þau hæstu í Evrópu.

„Við vonum því að Seðlabankinn taki til greina að eiginfjárstaða banka er mismunandi og heimili arðgreiðslur á næsta ári. Þegar banki er kominn með svo mikið eigið fé byrjar það að hafa hamlandi áhrif.“