Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir að nýjar tölur um verðbólgu komi töluvert á óvart.

Hagstofan birti í morgun nýjar tölur um verðbólgu þar sem kom fram að hún mælist nú um 5,7 prósent sem er töluvert yfir því sem greiningaraðilar hafi gert ráð fyrir.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.
Aðsend mynd.

„Við vorum að spá 0,2 prósent lækkun í janúar en fengum í staðinn 50 punkta hækkun. Við vorum að spá hefðbundinni janúarlækkun þar sem við sjáum yfirleitt lækkun á vísitölunni í janúar,“ segir Daníel og bætir við að veruleg hækkun íbúðaverðs í desember sé að hafa þarna mikil áhrif en sú hreyfing hafi verið nokkuð óvænt eftir tiltölulega hóflegar hækkanir í október og nóvember. „Útsöluáhrifin eru minni en í hefðbundnu ári og matarkarfan var að hækka aðeins meira en menn reiknuðu með. En að langmestu leyti er þetta húsnæðisliðurinn sem er að koma okkur á óvart þarna.“

Daníel segir jafnframt að þessar tölur auki verulega þær líkur að Seðlabankinn stígi stærri skref í vaxtahækkunum. „Það eru jafnvel líkur á því að við munum sjá 50 punkta hækkun á ný. Viðbrögðin á skuldabréfamarkaði eru þannig að markaðurinn virðist búinn að verðleggja 50 punkta hækkun inn og mögulega 50 punkta hækkun á næsta fundi þar á eftir.“

Hann bætir við að erfitt sé að segja til um hvort verðbólgan muni aukast mikið á komandi misserum. „Okkar spá gerði ráð fyrir því að verðbólgan kæmi ekki í markmið fyrr en á miðju næsta ári. En þessi staða gæti breytt þeirri spá. Það er talsverður undirliggjandi verðbólguþrýstingur á innfluttum vörum vegna hækkandi hrávöruverðs og truflana í aðfangakeðjum og þess háttar. Það eru sterkar vísbendingar sem benda til þess að þessar hækkanir séu ekki allar komnar fram. Ef væntingar um mikla hækkun á innfluttum vörum raungerast og fasteignamarkaðurinn fer ekki að róast gæti það haft í för með sér að við sjáum vexti hækka enn meira en reiknað var með.“

Hann segir einnig að ekki megi gleyma þeim efnahagslegum áhrifum sem þetta hefur í för með sér. „Við erum að koma inn í ár þar sem kjarasamningar verða lausir á seinni hluta ársins og þetta getur haft áhrif á kröfugerðina og væntingar til launahækkana ef Seðlabankinn missir tökin á verðbólguvæntingum til lengri tíma.“