Guðmundur Ingi Ásmundsson hefur verið forstjóri Landsnets frá árinu 2015. Hann hefur starfað í orkugeiranum frá 1982, þegar hann réð sig til Landsvirkjunar. Nokkur styr hefur staðið um starfsemi Landsnets á undanförnum mánuðum, þar sem gagnrýni á lagaumgjörð sérleyfisfyrirtækja hefur verið höfð uppi af hinum ýmsu hagsmunaaðilum á raforkumarkaði.

Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2021–29 hefur þannig verið skotspónn raforkuframleiðenda á Íslandi. Bent hefur verið á að nýjasta kerfisáætlun Landsnets taki mið af raforkuspá Orkustofnunar frá því snemma á árinu 2020. Síðan þá hafi stóra myndin breyst nokkuð og vöxtur eftirspurnar raforku talinn munu verða minni en fyrir ríflega einu ári síðan. „Vissulega erum við að ganga í gegnum fordæmalausa tíma sem hafa áhrif á markaðinn til skemmri tíma. Við sjáum hins vegar mikil batamerki á markaðinum. Staða stórnotendanna er að færast í fyrra horf og óvissan að minnka. Samdráttur í ferðaþjónustunni hefur enn áhrif á smásölumarkaðinum en vænta má aukningar þegar faraldurinn gengur niður. Þegar ákvarðanir eru teknar um innviði sem munu standa í áratugi er mikilvægt að horfa til langs tíma. Við sjáum það til dæmis að fjölbreytt flóra orkuframleiðenda er að taka ákvarðanir um að reisa nýjar virkjanir og markaðssetja orkuna.

Það eru auðvitað fjölmargar sviðsmyndir byggðar á raforkuspá sem liggja til grundvallar nýjustu kerfisáætlunar okkar og við horfum til þeirra allra. En við gefum út kerfisáætlun árlega og stillum okkur af miðað við raforkuspá hverju sinni. Við reynum svo að stilla fjárfestingar af, þannig að flutningsgjöld haldist eins stöðug og mögulegt er. Raforkuspáin myndar grundvöll kerfis­áætlunar til lengri tíma litið,“ segir Guðmundur.

Flutt orka meira en tvöfaldast

Betri nýting flutningskerfisins, samfara auknum flutningi rafmagns milli landshluta, geti hins vegar dregið úr verðhækkunum: „Hafa verður í huga að ef raforkunotkun eykst þá fáum við betri nýtingu á flutningskerfið, sem heldur þá aftur af verðhækkunum. Þannig að það getur verið jákvæð þróun fyrir notendur kerfisins að flutningur aukist. Frá 2005 hefur magnið í kerfinu aukist um 125 prósent en rekstrarkostnaður á föstu verðlagi um 49 prósent. Með nýjum, sterkari tengingum milli landshluta, sem auka möguleika nýtingar á rafmagni víða um land, getur það komið öllum notendum til góða,“ segir forstjórinn. Hann nefnir að núverandi kerfisáætlun verði ekki breytt, hún er komin í umsagnarferli til Orkustofnunar: „Henni verður ekki breytt nema stofnunin komi með einhverjar ábendingar.“ Vinna við gerð næstu kerfisáætlunar fyrir árið 2021 er þegar hafin.

Guðmundur segir að efla þurfi Orkustofnun til samræmis við sífellt aukið mikilvægi raforku í nútímahagkerfi: „Við viljum hins vegar gjarnan sjá miklu sterkari fagstofnun sem veitir orkugeiranum aðhald og ráðgjöf. Við teljum að það þurfi að efla Orkustofnun og huga að hlutverki hennar, þannig að hún verði ráðgefandi og leiðbeinandi og taki þannig einnig inn áskoranir framtíðar. Þá er ég ekki bara að vísa til kerfisáætlunar. Landsnet hefur það hlutverk að byggja upp flutningskerfið en við höfum líka það hlutverk að greiða fyrir viðskiptum með raforku.“

Uppbygging viðskiptakerfis og markaðar með raforku hafi gengið hægt hér á landi: „Við sjáum að slíkt hefur skilað miklum ábata í nágrannalöndunum. Það ber að hafa í huga til dæmis að tilgangur heildsölumarkaðar er að skila hagkvæmasta verði á hverjum tíma til neytenda. Þá geta neytendur stýrt sinni notkun betur, bæði eftir hagstærðum og verði en líka eftir umhverfissjónarmiðum. Kerfi sem þessi hafa reynst vel víða um heim. Orkustofnun þarf að styðja við þessa uppbyggingu og vera leiðandi í því að koma á regluverkinu.“

Að sögn Guðmundar eru kröfur á raforkuinniviði að vaxa hratt og þar af leiðandi þurfi að gefa í við fjárfestingar. „Ef við fjárfestum bara fyrir afskriftir erum við ekki að fjárfesta fyrir nýjar þarfir. Fjárfestingar okkar þurfa að endurspegla þarfir til framtíðar. Að sama skapi er mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Á síðastliðnum árum höfum við ekki í öllum tilfellum verið að fjárfesta umfram afskriftir, höfum jafnvel verið undir. Ef við horfum til Noregs, sem við erum oft borin saman við, þá hefur Statnett lýst því yfir að gjaldskráin muni hækka töluvert á næstu árum þar sem mikil fjárfesting er fram undan, bæði vegna uppfærslu á flutningskerfinu en líka vegna framtíðarþarfa. Statnett er þegar byrjað að hækka gjaldskrána til að safna fyrir fjárfestingum framtíðarinnar til að dempa verðhækkanir framtíðar.“

Minna afhendingaröryggi kallar á sterkara flutningskerfi

Uppbygging svokallaðs N-1 flutningskerfis um allt land hefur verið gagnrýnd vegna hás kostnaðar, en N-1 tenging stendur fyrir hringtengingu þar sem ekki verða hömlur á afhendingu rafmagns þó annar leggur af tveimur verði fyrir bilun. „Breytileiki raforkuframleiðslu er að aukast. Aukning vægis vindorku og sólarorku þýðir að það þarf sterkara flutningskerfi, enda er minna afhendingaröryggi einn fylgifiska þessara orkugjafa,“ segir Guðmundur.

„Rafmagn er alltaf að verða mikilvægara. Í grænni umbyltingu sem heimurinn er að ganga í gegnum verður rafmagn aðalorkugjafi hagkerfisins. Allt samfélagið stefnir í þá átt að rafmagn skiptir öllu máli. Hvort það er útfært með hringtengingu eða ekki er í raun aukaatriði. Af sömu sökum er mikilvægt að horfa á viðskiptakerfin samhliða uppbyggingu kerfisins, til að við getum nýtt okkur alla þá tækni sem er fram komin. Breytingar eru að eiga sér stað og raforkukerfin verða enn mikilvægari lífæð samfélagsins en þau eru núna.“

Óumflýjanleg hækkun gjaldskrár

Stærstu raforkuframleiðendur landsins, Samtök iðnaðarins og aðrir hagsmunaaðilar, hafa sagt að arðsemi sérleyfisfyrirtækja á raforkumarkaði, einkum og sér í lagi Landsnets, sé nokkuð umfram eðlilega ávöxtunarkröfu. Einkum og sér í lagi í því lágvaxtaumhverfi sem nú er við lýði. Hækkun gjaldskrár Landsnets gagnvart stórnotendum upp á 5,5 prósent um síðastliðin áramót vakti að sama skapi mikil viðbrögð. Guðmundur segir að gert sé ráð fyrir því í lögum að arðsemi Landsnets sé innan ákveðinna marka. Eftir því hafi verið farið: „Það má taka umræðuna um hvort að breyta þurfi tekjumörkum eða arðsemismörkum Landsnets. Óháð nefnd sérfræðinga gerði það síðasta sumar og komst að niðurstöðu sem gilt hefur það sem af er ári. Nefndin hafnaði meðal annars sumum af þeim athugasemdum sem fram hafa komið."

Eignarhald leiðir til vantrausts

Góðar ástæður eru fyrir því að flestar þjóðir hafi breytt eignarhaldi sérleyfishafa frá aðilum á samkeppnismarkaði. „Það er út af samkeppnissjónarmiðum og svo ákveðnum gagnstæðum hagsmunum flutningsfyrirtækja og orkuframleiðenda. Þessi staða truflar starfsemi Landsnets að því leyti til að það leiðir til ákveðins vantrausts. Ef þú ert stór viðskiptavinur Landsnets en ekki í eigendahópnum, þá hefur það þau óbeinu áhrif að við þurfum að hafa meira fyrir því að vinna traust viðskiptavina. Það er eðlilegt að kallað sé eftir breytingum á eignarhaldi Landsnets og núverandi eigendur fyrirtækisins eru því sammála.

Ég vil samt minnast á í þessu samhengi að stórnotendagjaldskrá okkar hefur verið lækkandi frá stofnun fyrirtækisins, að raunvirði. Umræðan um gjaldskrána hefur mikið snúist um einstakar ákvarðanir í fortíðinni. Menn geta alltaf valið ákveðna tímapunkta og reiknað sig niður á ákveðna hluti. Hins vegar er það svo að fram að síðustu áramótum höfðum við ekki hækkað gjaldskrána frá árinu 2013 og frá þeim tíma hefur því verið um raunverðlækkun að ræða. Við viljum halda gjaldskránni stöðugri og helst ekki hækka hana og ég tel að við höfum fylgt þeirri stefnu eins og frekast er unnt frá stofnun fyrirtækisins.“

Forstjórinn er því sammála að núna hafi ekki endilega verið heppilegur tími til að hækka gjaldskrá, þar sem markaðsaðstæður hafi verið erfiðar frá því að heimsfaraldurinn hóf innreið sína. „Ræturnar liggja í fyrirkomulaginu samkvæmt raforkulögum. Við höfum kallað eftir auknu svigrúmi frá yfirvöldum til að færa tekjur milli ára en höfum ekki fengið. Við vorum því bundin af þessari verðhækkun samkvæmt lögum. Við megum færa tekjur milli ára í báðar áttir og vorum einfaldlega komin að mörkunum í þeim efnum og þurftum að hækka til að vera yfir lögbundnum, neðri tekjumörkum. Við lögðum til að heimild til flutnings á tekjum hækkaði úr 10 í 20 prósent um mitt síðasta ár, en það komst ekki í gegn.

Þessi umræða kom í kjölfar óveðranna á síðasta ári þar sem áskorun var um að flýta fjárfestingum Landsnets. En til þess að geta flýtt fjárfestingum hefðum við þurft þetta aukna svigrúm til að halda aftur af gjaldskrárhækkunum, en það fékkst ekki. Þar af leiðandi réðumst við í hækkanir. Við sjáum hins vegar mikil batamerki á orkumarkaðnum núna sem mun vega upp á móti hækkunarþörf,“ segir Guðmundur.

Lögin eru þannig í dag að tryggja þarf jafnræði allra með tilliti til flutningskostnaðar, óháð því hvort þar er um að ræða einstaklinga eða stórnotendur. Okkar fjárfesting er hins vegar að vissu leyti alltaf hin sama, hvort sem notandi kemur upp sinni starfsemi við hliðina á virkjun eða ekki.

Flöt gjaldskrá bundin í lög

Nefnt hefur verið í umræðunni að flöt verðskrá Landsnets sé óskilvirk. Þannig rukki Landsnet sem nemur sex dölum á megavattstund, óháð því um hversu langan veg raforkan er flutt. „Þegar við tölum um verðskrá Landsnets þarf í raun að skipta henni í tvennt. Annars vegar er það rekstur flutningskerfisins og hins vegar kerfisþjónusta. Hið síðarnefnda kaupir Landsnet af orkuframleiðendunum, þannig að tekjur okkar af hverri fluttri megavattstund er í raun um það bil fimm dalir, en ekki sex eins og rætt er um. Það sem út af stendur eru í raun tekjur orkuframleiðendanna. Raunverulegar tekjur okkar eru um fimm dalir af hverri megavattstund.“

Hugmyndir um að þeir stórnotendur sem staðsetja sig nær flutningskerfi, sem dregur úr fjárfestingarþörf á flutningskerfinu, njóti þess með einhverjum hætti eru góðra gjalda verðar, að sögn Guðmundar:

„Þegar raforkulögin voru samþykkt var tekin ákvörðun um það að flutningsgjald verði hið sama óháð búsetu. Við höfum í sjálfu sér bara unnið eftir þeirri lagasetningu. Auðvitað getur verið skynsemi í því að færa orkufreka starfsemi nær virkjunum til að spara flutninginn. En besta leiðin til að ná fram aukinni hagkvæmni í þessum efnum er að tilboðsmarkaður með raforku verði byggður upp. Skynsamlegt væri ef fyrirtæki hafa hvata til að staðsetja sig þannig að álag á flutningskerfið sé minna og verði síður til þess að fjárfesta þurfi frekar í flutningskerfinu. Hins vegar er hægt að leysa mikið af þessum vandamálum með frjálsari viðskiptum með orku, þar sem neytendur og seljendur rafmagns geta stillt sína notkun af betur. Lögin eru þannig í dag að tryggja þarf jafnræði allra með tilliti til flutningskostnaðar, óháð því hvort þar er um að ræða einstaklinga eða stórnotendur. Okkar fjárfesting er hins vegar að vissu leyti alltaf hin sama, hvort sem notandi kemur upp sinni starfsemi við hliðina á virkjun eða ekki, því við þurfum alltaf að tengja virkjunina inn á flutningskerfið hvort sem er og vera reiðubúin til þess að flytja alla orkuna frá henni.“

Miða við afl frekar en orku

Samkvæmt núverandi samningum Landsnets þurfa notendur flutningskerfisins að greiða samkvæmt svokölluðum afltoppum. Þeir fjórir mánuðir sem notandinn flutti til sín mesta raforku mynda þannig grundvöll kostnaðar gagnvart Landsneti, jafnvel þó að miklu minni raforka sé flutt til viðkomandi hina átta mánuði ársins og það jafnvel þótt Landsnet skerði flutning vegna álags á kerfið: „Okkar fjárfestingar eru drifnar af afli frekar en orku. Við þurfum að byggja kerfið þannig upp að það ráði við afltoppana, þess vegna tekur gjaldskráin mið af fullri notkun. Það mætti alveg snúa þessu við og spyrja af hverju við ættum að miða verðskrána við orkunotkun? Með þeim hætti væru þeir sem nýta kerfið með rysjóttari hætti þá að njóta niðurgreiðslu frá þeim sem fullnýta það. En ætti Landsnet að greiða þóknanir til þeirra sem verða fyrir skerðingu? „Í stað þess að greiða þóknanir til þeirra sem verða fyrir skerðingu væri betra að taka upp markaðsfyrirkomulag þar sem notendur og framleiðendur geta brugðist við breyttum aðstæðum."

Fréttablaðið/Anton Brink

Tenging Fljótsdalsstöðvar hagsmunamál allra

„Okkar hlutverk er að taka ákvarðanir sem tryggja aðgang allra að flutningskerfinu. Við okkar ákvarðanir um uppbyggingu er horft til heildarhagsmuna þar sem öllum er tryggður jafn aðgangur. Samkvæmt raforkulögum er okkur bannað að mismuna notendum kerfisins og skulum meðhöndla alla jafnt. Í því felst að uppfylla sömu kröfur um allt land. Ef við horfum til byggðalínunnar milli Fljótsdalsstöðvar og suðvesturhornsins eiga fjölmargir hagsmuna að gæta þar. Til dæmis öll þau fyrirtæki og heimili sem eru staðsett á Norður- og Austurlandi. Við höfum skyldu til þess að tryggja aðgengi og öryggi þeirra samanborið við þá sem búa í sterkari hluta kerfisins. Við getum því ekki horft á einstakar stöðvar einstakra aðila eingöngu.“

Í nýlegri umsögn sinni um kerfisáætlun velti Orka náttúrunnar upp þeim möguleika að kæra Landsnet til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að uppbygging byggðalínu frá Austurlandi og á suðvesturhorn landsins hygli Landsvirkjun, enda geti fyrirtækið þá selt umframorku frá Fljótsdalsstöð inn á raforkukerfið. Allir notendur kerfisins niðurgreiði þannig þessa fjárfestingu í gegnum hækkandi flutningsgjöld, en aðeins Landsvirkjun njóti góðs af henni: „Ég hef ekki áhyggjur af því ef samkeppnisyfirvöld blanda sér í málið. Við erum að byggja upp flutningskerfi til framtíðar og núna eru ákveðnir flöskuhálsar í kerfinu sem bitna á sumum, en gagnast öðrum.“

„Byggðalínukerfið er helsti flöskuhálsinn í dag. Það byrjar í Hvalfirði, fer vestur um land og svo í gegnum Norðurland og Austurland og endar á Þjórsársvæðinu. Flutningsgeta kerfisins er um það bil 100 megavött í dag, sem er um það bil 5 prósent af rafmagnsframleiðslu á Íslandi. Þetta er auðvitað mjög takmarkandi. Það þýðir að Landsvirkjun kemst ekki með sína framleiðslu á Austurlandi til annarra landshluta í dag og þetta er það sem Orka náttúrunnar hefur vísað til. Það þýðir líka að framleiðendur á suðvesturhorni landsins geta ekki boðið raforku til sölu á Austurlandi. Það er að minnsta kosti ekki okkar hlutverk að byggja upp eða viðhalda takmörkunum í kerfinu sem eru samkeppnishindrandi. En það má alveg snúa þessari mynd við og segja að það sé samkeppnishindrandi að takmarka tengingar inn á höfuðborgarsvæðið,“ segir Guðmundur.

Hann bendir á að uppbygging flutningskerfis raforku sé í raun þjóðaröryggismál, til dæmis með tilliti til jarðhræringa á Reykjanesi: „Ef eitthvað skyldi gerast í þeim efnum og raforkuöryggi höfuðborgarsvæðisins yrði ógnað, væri ágætt að geta fengið orku að norðan eða austan inn á suðvesturhornið til að fylla í skarðið svo heimili og fyrirtæki verði ekki fyrir orkuskerðingu. Ef einhver skakkaföll yrðu til að mynda á Hengilssvæðinu þá yrði það ekki bara rafmagnið sem dytti út á höfuðborgarsvæðinu heldur mögulega líka heita vatnið. Ef það kæmi upp heitavatnsskortur á höfuðborgarsvæðinu þá er rafmagn eina leiðin til að hita upp. Hér höfum við horft til þess að Evrópuþjóðir líta á það sem þjóðaröryggismál að hafa um 15% flutningsgetu á milli landa. Eins og ég nefndi áðan, þá erum við með um 5% flutningsgetu innan landshluta. Ef það er horft á þetta sem þjóðaröryggismál þá geta flutningar raforku milli landshluta skipt sköpum,“ segir Guðmundur, og ítrekar að hlutverk Landsnets sé það að tryggja öllum jafnan aðgang að flutningskerfinu. „Það er auðvitað ákveðin hagsmunagæsla sem á sér stað í umsögnum um kerfisáætlun.

„Eitt af sameiginlegum áhugamálum notenda kerfisins og þeirra sem framleiða raforku er að skrúfa niður innviðauppbyggingu, en það eru auðvitað notendur kerfisins sem greiða fyrir uppbygginguna í gegnum flutningsgjöld, sem taka mið af efnahagsreikningi Landsnets. Það er hefðbundið og eðlilegt að tekist sé á um þessi mál,“ segir hann.

Orkuöryggi Reykjaness vegur þungt í ákvörðun um Suðurnesjalínu II

Mikill styr hefur staðið um lagningu Suðurnesjalínu 2 allt frá árinu 2013. Landsnet fékk heimild Orkustofnunar til lagningu línunnar fyrir um sjö árum síðan með þeim tilmælum að semja þyrfti við landeigendur á svæðinu. Ef samningar næðust ekki, skyldi gert eignarnám. Á sama tíma var uppi þrýstingur frá náttúruverndarsinnum að línan skyldi lögð í jörðu, en slík lína er talsvert dýrari en loftlína. Landsnet sótti um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaga fjögurra á svæðinu þann 11.desember síðastliðinn.

Svo fór að Landsnet tók fjölda jarða eignarnámi árið 2014 að fenginni heimild frá þáverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, en ekki tókst að semja við landeigendur.

Ef einhver skakkaföll yrðu til að mynda á Hengilssvæðinu þá yrði það ekki bara rafmagnið sem dytti út á höfuðborgarsvæðinu heldur mögulega líka heita vatnið. Ef það kæmi upp heitavatnsskortur á höfuðborgarsvæðinu þá er rafmagn eina leiðin til að hita upp.

Á árunum 2015 og 2016 stóðu svo yfir átök um málið fyrir dómstólum, þar sem deilur landeigenda við Landsnet enduðu tvisvar fyrir Hæstarétti. Að endingu var eignarnám Landsnets ógilt í maí 2016 af Hæstarétti og í mars 2017 voru öll framkvæmdaleyfi Landsnets vegna línunnar felld úr gildi, meðal annars á þeim forsendum að fýsileiki jarðstrengs hefði ekki verið kannaður til hlítar.

En hvort er tilgangur Suðurnesjalínu II að tryggja orkuöryggi Suðurnesja eða auka flutningsgetu frá Suðurnesum og út á land? „Hvort tveggja skiptir máli þarna, okkar hlutverk er einfaldlega að tryggja að hægt sé að flytja raforku milli landshluta. Orkuöryggi Suðurnesja vegur hins vegar þungt. Á Reykjanesinu eru bara jarðgufuvirkjanir sem geta ekki starfað almennilega nema það sé tenging út fyrir svæðið. Öryggisþátturinn gagnvart Suðurnesjum er mikilvægur, en flutningsgetan frá Reykjanesi hefur heldur ekki verið nógu góð. Ef núverandi tenging dettur út þá detta virkjanirnar þar líka út og þar með rafmagnið á Suðurnesjum,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt nýju umhverfismati línunnar var loftlína aftur talin vera heppilegasti kosturinn. Aðstæður til að leggja jarðlínu eru mjög slæmar, enda þolir jarðstrengur ekki miklar jarðhræringar. Þessir skjálftar sem hafa verið nýlega á Reykjanesi hefðu sennilega verið of mikið fyrir jarðstreng. Svo er þetta líka spurning um kostnað. Jarðstrengur er tvöfalt dýrari en loftlína og myndi þar af leiðandi hafa meiri áhrif til hækkunar á gjaldskránna.

Við erum komin með tvö framkvæmdaleyfi af þeim fjórum sem við þurfum frá sveitarfélögum, Reykjanesbær á eftir að staðfesta sitt leyfi í bæjarstjórn og Vogar eru enn með leyfið til umfjöllunar . Viðræður við landeigendur eru hafnar aftur og við vonumst til þess að ljúka þeim farsællega, enda er eignarnám alltaf neyðarréttur. Við höfum ekki stjórn á tímalínunni í þessum efnum en við viljum ráðast í þessa framkvæmd sem allra fyrst.