Íslenska frumkvöðlafyrirtækið Uno og Elko hafa tekið höndum saman til að blása stafrænu viðbótarlífi í nýja jólagjafahandbók ELKO. Uno sérhæfir sig í lausnum tengdum svonefndum auknum veruleika, eða AR (Augmented Reality). Snjalllausn UnoAR gefur notendum kost á gagnvirkri upplifun í raunumhverfi, þar sem viðbætur koma í umhverfi fólks með hjálp snjalltækis þess. Í nýrri jólagjafahandbók ELKO öðlast myndir líf með hjálp snjalllausnarinnar þegar sérstaklega merktar myndir lifna við í blaðinu og birtast á skjám snjalltækja í gegnum app UnoAR. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Á komandi misserum kemur aukinn veruleiki til með að færast inn í líf okkar allra,“ segir Brynjar Kristjánsson, eigandi og annar stofnenda Uno. „Til marks um það er nýleg breyting á nafni móðurfélags Facebook í Meta sem endurspeglar áform félagsins um að skapa sýndarheim, eða metaverse, á veraldarvefnum. UnoAR er byltingarkennd aðferð sem fyrirtæki geta notað til að gera þjónustu sína og vörur eftirminnilegar. Geta má sér til um að fyrirtæki sem nýta tæknina geti náð afburða forskoti í markaðssetningu.“

Fyrir tilstilli snjalllausnar UnoAR birtast þrívíddar- og heilmyndir (hologram) hluta í umhverfi fólks. Siggi, þekkt persóna úr auglýsingum ELKO, stekkur hreinlega upp úr jólagjafahandbókinni með ýmis skilaboð þegar skönnuð eru ákveðin myndmerki í blaðinu. Í verslunum Elko geta viðskiptavinir fyrir jólin líka skannað myndmerki og þá tekur Siggi á móti þeim með skemmtileg jólaskilaboð.

„Í tengslum við sýndarveruleika eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast og við finnum fyrir þeim áhuga í verslunum okkar,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri Elko.

„Við gátum því ekki annað en stokkið á vagninn þegar við fréttum af íslensku nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í sýndarveruleika með áherslu á að láta blaðaefni lifna við í höndunum á fólki. Við hlökkum mjög til að heyra hvernig viðskiptavinir taka þessari nýjung og vonum að sem flestir sæki UnoAR-appið og prófi að skanna sig í gegnum jólagjafahandbók Elko.