Kortavelta Íslendinga erlendis nam 18,4 milljörðum króna í nóvember og jókst um 95 prósent milli ára, miðað við fast gengi. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem fjallar um gögn sem Seðlabankinn birti fyrr í dag um veltu innlendra greiðslukorta.

Neysla Íslendinga í útlöndum hefur ekki verið meiri síðan í júlí 2019. Við erum því farin að eyða meiru hjá erlendum söluaðilum en sást fyrir faraldur þrátt fyrir umtalsvert færri utanlandsferðir. Nóvembermánuður var veltumesti mánuður í kortanotkun Íslendinga erlendis síðan í júlí 2019. Brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru tæplega 34 þúsund, sem er áþekkt þeim fjölda sem sást í nóvember 2015. Kortaveltan er hins vegar nærri því tvöföld miðað við fast gengi. Þetta bendir til þess að þeir sem fara nú til útlanda geri talsvert betur við sig en áður, en einnig eru áhrif netverslunar hjá erlendum söluaðilum orðin mjög sterk. Stórir afsláttardagar í nóvember á borð við Svartan föstudag og Stafrænan mánudag hafa talsverð áhrif á netverslun Íslendinga í nóvember bæði innanlands og erlendis.

Í faraldrinum dróst einkaneysla saman á sama tíma og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst, sem bendir til þess að samdráttur neyslunnar hafi verið vegna takmarkana á neyslu fremur en afleiðing skerts kaupmáttar. Af þessu leiddi að sparnaður jókst eins og sjá má af innlánum heimila hjá innlánsstofnunum.

Innlán heimila hafa aukist jafnt og þétt frá því Kórónufaraldurinn skall á þótt farið sé að draga úr innlánsvextinum.

Nú er staðan slík að einkaneysla er farin að aukast nokkuð hratt á sama tíma og vöxtur í kaupmætti ráðstöfunartekna er heldur hóflegri. Það virðist þó ekki hafa teljandi áhrif á heimilisbókhaldið þar sem innlán halda áfram að aukast, þó með minni hraða en áður. Innlán heimilanna eru nú að jafnaði um 660 ma.kr. horft til meðaltals síðustu 12 mánaða, en voru samtals um 610 ma.kr. á sama mælikvarða fyrir ári síðan miðað við fast verðlag.

Hagfræðideild Landsbankans telur heimilin ekki vera að fara fram úr sér í neyslu. Skattaívilnanir og stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafi orðið til þess að kaupmáttur hafi haldist sterkur og sparnaður á mánuðum áður skili sér í aukinni neyslu nú. Hagstofan hafi greint frá því, þegar gögn um einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi voru birt, að talsverð aukning hefði mælst í bílakaupum heimila á tímabilinu. Nýskráð ökutæki hér á landi væru það sem af er ári orðin tæplega 15 þúsund talsins og komin fram úr því sem sást árið 2019. Gera megi ráð fyrir að ívilnanir stjórnvalda í formi lægri virðisaukaskatts á rafknúnum bílum hafi hvatt til kaupa almennings á slíkum ökutækjum.