Aukinn kraftur hefur verið færður í dreifingu Fréttablaðsins og verður blaðið nú aðgengilegt í öllum Bónus verslunum landsins alla fimm útgáfudaga blaðsins. Á næstu vikum verður dreifing aukin enn frekar og blaðastöndum verður komið fyrir á fleiri fjölförnum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu.

Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Torgi, segir verkefnið lið í aukinni þjónustu við lesendur. „Við viljum koma blaðinu á sem flesta staði vítt og breytt um landið og á sama tíma bjóðum við lesendum að ná í Fréttablað í stafrænu formi í gengum Fréttablaðsappið okkar, sem er aðgengilegt fyrir allar tegundir snjallsíma“ segir hann.

Fréttablaðið verður boðið í pappírsformi í verslunum en á blaðastöndunum og víða í blaðinu sjálfu er einnig QR-kóði þar sem fólk getur náð í Fréttablaðs-appið þar sem nýjasta tölublað er ávallt í boði eða lesið fréttir á frettabladid.is en þar er einnig hægt að nálgast blaðið á PDF-fomi.

Til að byrja með verður hægt að nálgast blaðið í verslunum Bónuss.