Hækkandi olíukostnaður íslenskra útgerða bætir gráu ofan á svart á yfirstandandi makrílvertíð, einkum í ljósi þess að sækja þarf fiskinn á fjarlægari mið en á síðustu árum. Heimsmarkaðsverð á þeirri tegund steinolíu sem notuð er á fiskiskip hefur hækkað um meira en 40 prósent á undanförnum 12 mánuðum, en olíuverð náði að vísu nokkrum lægðum á síðasta ári. Þar að auki hækkaði kolefnisgjald steinolíu um 10 prósent á þessu ári, en hækkunin er hluti af loftslags­áætlun stjórnvalda.

Ekki er meira en þrjú til fjögur ár síðan stærstur hluti þess makríls sem landað var á Íslandi veiddist innan íslensku efnahagslögsögunnar. Síðasta sumar fór nánast allur íslenski flotinn í Síldarsmuguna austur af landinu snemma í ágúst, en nú er svo komið að langstærstur hluti þess afla sem komið hefur að landi hefur fengist á því svæði.

Öll skip Eskju á Eskifirði eru nú aftur komin í Síldarsmuguna eftir að hafa reynt fyrir sér í skamman tíma í íslensku lögsögunni, að sögn Baldurs Marteins Einarssonar, útgerðarstjóra Eskju. „Þetta hefur verið erfitt. Menn eru að sjá makr­ílinn úti um allar jarðir. Hann sást til að mynda uppi á Bakkaflóa. Ef hann er úti um allt er erfiðara að kasta á hann. Okkar skip eru komin aftur í Síldarsmuguna, en þar eru fyrir Grænlendingar og Rússar,“ segir Baldur.

Hann segir að hækkandi olíukostnaður sé íþyngjandi, en það skipti ekki öllu máli ef veiðist vel. Þar að auki sé mesta olíueyðslan þegar verið er að toga veiðarfæri, en íslensku skipin hafa eytt minni tíma í veiðar en leit á undanförnum dögum. Undir það tekur Friðrik Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Hann segir að hækkandi olíukostnaður hjálpi vissulega ekki, en stóra vandamálið sé hversu döpur veiðin sé.

Ólíklegt er að makrílveiðar glæðist á allra næstu dögum, hvorki í íslensku lögsögunni né í Síldarsmugunni. Slæmu veðri er spáð á miðum austan við landið fram að helgi, en makríll veiðist illa í slæmu veðri og einna best í blíðu. „Við ætlum að landa því sem við erum með núna og svo taka stöðuna. Það er fiskur úti um allt en hann veiðist ekki. Það er hrafl um allan sjó en makríllinn á eftir að þétta sig í torfur. Það er bræla núna, það þarf að vera gott veður svo að veiðin sé bærileg,“ segir Friðrik Már.

Kunnugt er að bæði Færeyingar og Norðmenn boðuðu einhliða stórauknar aflaheimildir í makríl á þessari vertíð, án samráðs við Bretland eða Evrópusambandið, eða nokkurt annað strandríki.

„Norðmenn fara ekki af stað fyrr en í lok september en gera það væntanlega í ágúst í ár vegna þessarar miklu aukningar í sínum kvóta. Eru með 55 prósentum meira en í fyrra. Færeyingar svipað. Það er hik í markaðnum núna því það er lítil veiði. Ef það verður róleg veiði áfram þá ætti verðið að færast upp á við. Markaðurinn væri hins vegar mjög sterkur núna strax ef Norðmenn og Færeyingar hefðu ekki tilkynnt þennan aukna kvóta fyrr á árinu,“ bætir Friðrik við.