Stefnir, sjóðastýringarfélag í eigu Arion banka, hagnaðist um ríflega 975 milljónir króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Til samanburðar nam hagnaðurinn 897 milljónum króna árið 2018.

Hreinar rekstrartekjur Stefnis voru alls 2,41 milljarður króna á síðasta ári borið saman við 2,32 milljarða króna árið 2018. Umsýslu- og árangurstengdar þóknanir námu tæplega 2,17 milljörðum króna á árinu 2019 og drógust saman um fjögur prósent á milli ára.

Þá voru rekstrargjöld sjóðastýringarfélagsins 1,18 milljarðar króna í fyrra og lækkuðu um 26 milljónir króna frá árinu 2018. Þar af námu laun og launatengd gjöld um 622 milljónum króna en 21 starfsmaður var hjá félaginu á árinu.

Eignir í virkri stýringu Stefnis lækkuðu á árinu um 79 milljarða króna eða úr 331 milljarði króna í rúma 252 milljarða króna. Það skýrist meðal annars af slitum fagfjárfestasjóðsins ABMIIF og útgreiðslu úr sérhæfðum afurðum vegna loka fjárfestingarverkefna. Aðrir eignaflokkar nutu góðs af hagfelldum aðstæðum á innlendum og erlendum mörkuðum og hækkuðu eignir þeirra um tæpa nítján milljarða króna á árinu.

Á aðalfundi Stefnis síðasta föstudag var samþykkt tillaga stjórnar um að greiddur verði arður upp á 1.070 milljónir króna vegna síðasta árs.