Erlendum fjárfestingaverkefnum hér á landi hefur fjölgað á undanförnum misserum og þau orðið sífellt fjölbreyttari. Þetta segir Arnar Guðmundsson, fagstjóri fjárfestinga hjá Íslandsstofu.„Þróunin undanfarin ár hefur verið á þann veg að fjölbreytnin hefur aukist. Auðvitað hægði Covid-19 faraldurinn á þessari þróun en við höfum samt sem áður séð aukningu á síðustu árum,“ segir Arnar og bætir við að erlendar fjárfestingar hafi fært sig inn á fleiri svið að undanförnu.

„Í upphafi voru erlendar fjárfestingar aðeins í tengslum við stök verkefni og fyrst og fremst orkuháð. Síðan þegar fram líða stundir þá fer erlenda fjárfestingin að leita inn á fleiri svið. Til að mynda þegar DeCode kom til sögunnar og kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal, þá er hún komin í líftæknivísindin. Síðan koma gagnaverin í upplýsingatækninni og fjárfestingarverkefni í ferðaþjónustunni. Fyrir nokkrum árum fórum við að sjá stórar erlendar fjárfestingar inn í hótelgeirann, bæði KEA-hótelin, Icelandair Hotel, Deplar og Höfði Lodge við Grenivík. Einnig höfum við séð aukningu á erlendri fjárfestingu inn í afþreyingartengda ferðaþjónustu eins og FlyOver Ice­land og SkyLagoon. Þar að auki hafa okkar flottu íslensku hugvits- og þekkingarfyrirtæki sótt stóraukið fjármagn. Þetta er dæmi um það helsta sem hefur verið að gerast á undanförnum árum. En það sem við sjáum núna með fjárfestingu Ardian í Mílu er risastór innviðafjárfesting og áhugavert að fylgjast með hvort slíkar fjárfestingar muni færast í aukana á komandi misserum.“

Aðspurður hvernig hann telji að þróun erlendra fjárfestinga á Íslandi munu verða á komandi misserum segir Arnar að afspurn af verkefnum sem gangi vel hér á landi ýti undir áhugann hjá öðrum á sömu sviðum.„Við sáum að þegar fyrsta kísiljárnsverkefnið fór af stað á Íslandi þá greinilega hringja bjöllur í stjórnarherbergjum annarra aðila í sömu grein. Þá förum við að fá fyrirspurnir þrátt fyrir að við höfum aldrei lagt áherslu á að markaðssetja Ísland fyrir kísiljárn, þetta bara gerðist. Fyrsta verkefnið byrjar og þá kviknar áhugi hjá öðrum aðilum. Þeir fara að velta fyrir sér hvað sé að gerast á Íslandi fyrst keppinautar eru að skoða það,“ segir Arnar og bætir við að það sama hafi verið upp á teningnum með gagnaverin og ferðaþjónustuna.

„Ég tel líka að áhugi á Íslandi sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og sú markaðssetning í kringum það hafi komið Íslandi á kortið og gert það að verkum að fjárfestar sæki hingað. Að undanförnu hafa erlendir innviðafjárfestar keypt bæði Verne Global gagnaverið og gagnaver Borealis á Blönduósi og Fitjum. Svo er nýjasta dæmið fjárfestingin í Mílu. Þannig að ef við tökum mið af þessu er spurning hvort aukinn áhugi verði á innviðafjárfestingum hér á landi á næstunni.Við erum ekki með bolmagn til að vera í almennri markaðsherferð en við höfum lagt áherslu á sjálfbærar fjárfestingar. Einnig hefur verið í forgangi hjá okkur að líta til gagnavera, uppbyggingar ferðaþjónustunnar og hjálpa fyrirtækjum í þekkingargeiranum að vaxa. Þá er mjög vaxandi þungi í eflingu hringrásarhagkerfisins og fullnýtingar jarðvarma.“

Arnar bætir við að það sé hlutverk löggjafans að setja lagarammann í kringum slíkar fjárfestingar.„Við erum að horfa á beina erlenda fjárfestingu og þá skiptir miklu máli að halda því til haga að erlendir fjárfestar eru að koma hingað inn í sömu kröfur og sama regluverk og gildir fyrir íslenska fjárfesta. Þannig að öll umræða um hvar fólk vill hafa erlenda fjárfestingu og hvar ekki er eitthvað sem löggjafinn svarar. Þegar ramminn hefur verið settur þá nær hann yfir alla. Það er ekkert sem innlendir fjárfestar geta gert sem erlendir fjárfestar geta ekki gert. Þannig að almannahagsmunir hljóta að vera varðir með lögum og reglum. Almennt er það þannig að fjárfestar kippa sér ekkert upp við að þeim sé settur rammi eða gerðar séu til þeirra kröfur en það sem skiptir mestu máli er að það sé ljóst fyrir fram að hverju er gengið. Það er í raun stöðugleikinn sem skiptir mestu máli.“

Sigurður Hannessson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það vera undir stjórnvöldum komið hvort bein erlend fjárfesting muni aukast á komandi misserum. „Það er undir nýrri ríkisstjórn komið að skapa hagfelld skilyrði fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi. Það er engum blöðum um það að fletta að tækifærin eru til staðar en það þarf að sækja þau,“ segir hann og bætir við að það muni ekki gerast nema stjórnvöld séu virkir þátttakendur í því.

„Við höfum til að mynda séð stórfyrirtæki eins og Google og Microsoft fjárfesta í uppbyggingu í Svíþjóð og Danmörku fyrir mjög stórar fjárhæðir sem styrkir upplýsingatækniiðnaðinn í þeim löndum. Við myndum vilja sjá að ný ríkisstjórn setji þessi mál á oddinn því þetta myndi leiða til enn meiri fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu, vexti og verðmætasköpun.“Hann segir jafnframt að fjárfestar leiti þangað sem tækifæri eru til staðar og ekki óþarflega mikið flækjustig.

„Mörg ríki vilja laða til sín fjárfestingu en það er þannig að fjárfestar leita fyrst þangað sem þeir eru velkomnir. Þess vegna skiptir máli að stjórnvöld sendi skýr skilaboð um að svona uppbygging sé velkomin hér á landi.“