Það var mat stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) að þátttaka í nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair Group væri áhættusöm fjárfesting og að vænt ávöxtun myndi ekki vega upp þá áhættu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stefáni Sveinbjörnssyni, formanni stjórnar LIVE, sem segir að um óvenjulegt útboð hafi verið að ræða þar sem hlutafjáraukningunni væri ætlað að mæta taprekstri komandi mánaða.

Fréttablaðið greindi frá því á fimmtudag að lífeyrissjóðurinn hafi ekki tekið þátt í útboðinu en LIVE var fyrir það næst stærsti hluthafinn í flugfélaginu með 11,8 prósenta hlut.

Framkvæmdu óvenju ítarlega greiningu

Stefán segir að stjórn LIVE hafi komist að þessari niðurstöðu eftir mjög ítarlega greiningu.

„Sú greining fól m.a. í sér að fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til að rýna fjárfestingakostinn, haldnir voru fundir með stjórnendum Icelandair, sendar voru skriflegar spurningar til félagsins, farið var í rýnivinnu með sérfræðingum (e. airline specialists) hjá Bloomberg, rýnt var í greiningarefni úr fluggeiranum, rýnt var í ársreikninga erlendra flugfélaga og fenginn var erlendur ráðgjafi til að rýna í umhverfisþætti, félagslegaþætti og stjórnhætti félagsins.“

Þá hafi lífeyrissjóðurinn stillt upp verðmatslíkani til að meta vænta ávöxtun af fjárfestingunni.

„Sjaldan hefur fjárfestingakostur sjóðsins verið rýndur með jafn ítarlegum hætti og hlutafjárútboð Icelandair.“

Rætt á fjórum stjórnarfundum

Í kjölfar greiningarinnar hafi kosturinn verið ræddur ítarlega á fjórum stjórnarfundum.

„Niðurstaðan var að áhættan í fjárfestingunni væri mikil og vænt ávöxtun vægi ekki upp þá áhættu. Á þeim forsendum var tekin ákvörðun um að taka ekki þátt í útboðinu,“ segir Stefán í yfirlýsingunni.

Hluthafalisti Icelandair mun taka verulegum breytingum eftir útboðið sem fór langt fram úr væntingum markaðarins. Meðal þeirra lífeyrissjóða sem tóku þátt í útboðinu voru Gildi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Brú lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn og Lífsverk.