Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að þar sem heildarkortavelta landsmanna hafi náð hæsta gildi frá upphafi mælinga í desember síðastliðnum sé líklegt að einkaneyslan á fjórða ársfjórðungi síðasta árs muni fara langt fram úr væntingum Seðlabankans, og þar með styðja við frekari vaxtahækkanir.

„Þessar tölur varðandi heildarkortaveltuna komu ekki beint á óvart enda í takt við fyrri mánuði. Það hefur verið mikill kraftur í kortaveltunni, neyslu heimilanna og innlenda hagkerfinu í heild,“ segir Erna og bætir við að Seðlabankinn hafi spáð í kringum 5 prósenta einkaneysluvexti á fjórðungunum.

„Miðað við hversu mikill kraftur var í kortaveltunni þá er hægt að leiða líkur að því að einkaneysluvöxturinn verði umfram spár Seðlabankans. Það mun að öllum líkindum leiða til frekari vaxtahækkana.“

Aðspurð hversu hratt Seðlabankinn komi til með að hækka vexti segir Erna að það fari eftir því hver þróunin verði hverju sinni.

„Seðlabankinn er kominn í vaxtahækkunarfasa og er að spá því að framleiðsluslakinn sé horfinn eða við það að hverfa. Síðan er verðlagsþrýstingur mikill þannig að það er fátt annað sem kemur til greina heldur en áframhaldandi vaxtahækkanir. Hversu miklar þær hækkanir verða fer eftir ýmsu, meðal annars vaxtamun við útlönd, innlendum verðbólguþrýstingi og framleiðsluspennu í hagkerfinu. En það er ekki alveg jafn aðkallandi að taka stór skref í vaxtahækkunum þegar vextir eru komnir í 2 prósent og harðar sóttvarnaaðgerðir við lýði.“

Hún segir jafnframt að sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda virðist hafa sífellt minni áhrif á neysluhegðun fólks.

„Við sáum í upphafi faraldurs að kortaveltan og væntingar voru að fylgja sóttvarnaaðgerðum en aðgerðirnar eru ekki að hafa sömu áhrif og áður. Fyrst um sinn höfðu þær meiri áhrif en þær hafa nú.“