Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, segir að aukin áhersla á hugvitsdrifin fyrirtæki sé góð leið til að fjölga störfum. Vísisjóðurinn eigi í 14 fyrirtækjum. Þegar Crowberry Capital fjárfesti í þeim voru starfsmenn oft þrír til fjórir en fyrirtækin hafi að undanförnu ráðið hátt í annan hundrað starfsmenn samtals.

Þetta segir Helga í viðtali við sjónvarpsþátt Markaðarins sem sýndur verður klukkan níu í kvöld á Hringbraut. Helgi Vífill Júlíusson blaðamaður og Helga ræða þar vítt og breytt um nýsköpun.

Helga segir það að starfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum höfði vel til ungs fólks sem sé að útskrifast úr háskóla. Um sé að ræða alþjóðleg þekkingarstörf bjóði upp á alþjóðleg samskipti og fleira.

Aðspurð hvort slík störf séu bara fyrir forritara segir hún svo ekki vera. Ýmis önnur menntun geti komið að góðum notum. „Það þarf líka fólk með gott verkvit. Og því meira sem fjárfest er í nýsköpun, því meira verður af afleiddum störfum,“ segir Helga.

Hagkerfið dróst saman um tæp sjö prósent á árinu 2020 sem rekja má til COVID-19 og heildaratvinnuleysi var tólf prósent í mars.