Einar Ben, framkvæmdastjóri framleiðslustofunnar Tjarnargötunnar, segir að það geti verið erfitt fyrir „skapandi kolla“ að slökkva á því að hugmyndir streymi fram þegar vinnudegi lýkur. Hann segir að útivera sé nauðsynleg til að endurnæra líkama og sál.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Ég held að enginn sé búinn að fullkomna þetta jafnvægi algjörlega. Ég tel þetta vera ferli sem þú bestar allt þitt líf. En það er oft þannig með sprota sem og skapandi kolla að erfitt getur reynst að slökkva á hugmyndum og pælingum sem einhvern veginn alltaf krauma. Þannig fæðast oft góðar hugmyndir á furðulegustu tímapunktum.

Ef það er mikið álag eða stress er rakið að hreyfa sig mikið sem og að henda sér í sjósund og gufu – þá kemurðu stóískur og góður heim.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Áhugamálin mín eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Sum hver eru nær því að vera „lífsnauðsynleg“ fremur en áhugamál per se. Ég myndi þannig segja að ferðalög, tónlist og útivera séu sú heilaga þrenning sem ég held mest upp á og séu næst því að vera hluti af mínum eigin Maslow-píramída.

Ég er með mjög fjölbreyttan tónlistarsmekk. Allt frá þungum metal sem getur reist við hina dauðu yfir í rapp þar sem orðaforðinn gæti sært blygðunarkennd örgustu sjóara. Fyrir mér er mjög mikilvægt að nálgast tónlist, eins og annað í lífinu, með opnum huga og festa sig ekki einungis við ákveðin tímabil, stefnu eða flokk – lífið er of stutt fyrir sömu síbyljuna.

Svo hef ég verið svo heppinn að hafa tækifæri til að ferðast talsvert, bæði vegna vinnu og svo með fjölskyldunni, og þannig fengið að upplifa ólíka menningarheima, víkkað þannig sjóndeildarhringinn og ýtt mér aðeins lengra út fyrir þægindarammann.

Svo er útiveran ómissandi og spannar allt frá útihlaupum, sjósundi, snjóbretti, að ganga á fjöll, yfir í einfaldlega að skella hljóðbók í eyrun og labba um hverfið. Fyrir mér er bara nauðsynlegt að vera úti ef maður ætlar að hlaða líkama og sál.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Heilt yfir er það Factfullness eftir dr. Hans Rossling. Hún undirstrikar að þrátt fyrir að heimurinn sé allt nema fullkominn er hann sannarlega betri í dag en hann var í gær. Við erum nefnilega „víruð“ til að taka eftir því sem miður fer en gleymum gjarnan, nú eða fréttum ekki af, þeim gígantísku framförum sem eru að eiga sér stað í heiminum nær og fjær. Ef horft er á tölur og staðreyndir fremur en „tilfinningar“ kemur nefnilega í ljós að heimurinn hefur aldrei verið betri en akkúrat í dag. Fyrir utan að vera gott „pepp“ þá undirstrikar bókin jafnframt hversu mikilvægt það er að hafa réttar upplýsingar fyrir framan sig í leik og starfi og láta ekki skoðanir annarra, fyrirsagnir frétta eða eigin „gut feeling“ stýra ferðinni alfarið.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Heilt yfir hefur það verið að vinna með þessu furðulega ástandi sem COVID-19 hefur skapað. Töluvert af okkar plönum fór lóðbeint í vaskinn í byrjun árs. En það er eins með það og allt annað. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Þannig hefur skapast meira andrými fyrir eigin hugmynda og til vöruþróunar og nýsköpunar.

Hvernig er rekstrarumhverfið að taka breytingum og hvaða tækifæri felast í breytingunum?

Þrátt fyrir að vera heilt yfir frekar mikil Pollýanna, þá tel ég líklegra en hitt að hart verði í ári hjá mörgum fyrirtækjum í vetur. Þannig eru þau fyrirtæki líkleg til að endurhugsa ráðstöfun á sínum framleiðslu- og markaðsaurum. Sem er klárlega sóknartækifæri fyrir marga.

Jafnframt er það skrifað í skýin að þegar atvinnuleysi eykst er víst að ný og flott sprotafyrirtæki munu í auknum mæli líta dagsins ljós. Þannig að ef við horfum fram hjá skammtímaerfiðleikunum þá held ég að eljan, sköpunargáfan og krafturinn í landsmönnum muni ala af sér eitthvað magnað í mjög svo náinni framtíð.

Hvers konar stjórnunarstíl hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?

Heilt yfir er það að nálgast alla sem jafningja. Því að enginn er betri, merkilegri, eða æðri en sá næsti. Óháð titlum, menntun eða verkefnastöðu og svo framvegis. Þó að það sé nauðsynlegt að hafa á hreinu hver stjórnar eða ber ábyrgð hverju sinni tel ég það vera algjört lykilatriði að allir geti vaxið og dafnað vitandi að þeirra skoðanir og hugmyndir vegi jafnt þungt og annarra.

Þá held ég að það sé því miður alltof algengt að keimlíkir persónuleikar pari sig saman og missi þannig af mikilvægum tækifærum til að vaxa. Þannig getur útkoman verið heldur bagaleg ef hópur „nei“-fólks nú eða „já“-manna parar sig saman. Annaðhvort er allt frábær hugmynd eða alls ekkert. Hvorugt er vænlegt til vinnings. Að mínu mati er þetta alltaf spurning um að umvefja sig fólki sem hefur styrkleika og veikleika á mismunandi sviðum. Ekki að setja öll „eggin“ í eina körfu og vonast svo til að hitt allt reddist.

Helstu drættir

Nám:

MA-gráða í almannatengslum og ímyndarstjórnun frá University Of The Arts, London.

BS-gráða í sálfræði frá Háskóla Íslands.

Störf:

Stjórnarmaður hjá Norsk-íslenska viðskiptaráðinu 2019–.

Stjórnarmaður hjá Ímark, samtökum markaðsfólks á Íslandi 2016–2019.

Framkvæmdastjóri Tjarnargötunnar 2011–.

Markaðsstjóri Ring hjá Símanum 2009–2011.

Framkvæmdastjóri Netmiðla 2005–2008.

Fjölskylduhagir:

Í sambúð með Guðrúnu Ansnes, sem er annar eigandi Ampere, fyrirtækis sem sérhæfir sig í hönnun og almannatengslum. Saman eigum við soninn Benedikt Breka Ansnes Einarsson sem varð sjö ára fyrir nokkrum dögum.