Skeljungur hefur opnað nýja verslun í Skútuvogi 1 og býður þar upp á margs konar vörur fyrir bílaþrif og annað viðhald bíla.

Kristinn Gunnarsson er verkefnastjóri hjá Skeljungi og hóf þar störf í maí 2022 eftir tíu ár hjá Símanum, þar sem hann var rekstrarstjóri verslana Símans undir það síðasta.

„Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval af olíum og hreinlætisvörum fyrir bíla, vinnutæki, flug- og skipaþjónustu. Eftir uppskiptingu fyrirtækisins er meiri þörf á sérhæfðri verslun í nafni Skeljungs þar sem Skeljungur og Orkan, sem rekur bensínstöðvarnar, eru núna sitt félagið hvort. Verslunin er aðgengileg og rúmgóð og opin alla virka daga klukkan 08-16,“ segir Kristinn.

Hann segir Skeljung vera með öflugt samstarf við Shell og vera umboðsaðila Shell á Íslandi. „Við látum einnig framleiða fyrir okkur tjöruhreinsi, olíuhreinsi og frostlög, sem er seldur undir merkjum Skeljungs, og olíu og rúðuvökva, sem er seldur undir merkjum Orkunnar. Við seljum einnig hágæða bílahreinsivörur frá þýska framleiðandanum Koch-chemie. Við leggjum áherslu á umhverfisvænni valkosti í okkar vöruframboði eins og til dæmis kolefnisjöfnuðu smurolíuna frá Shell.“

Skeljungsverslunin var opnuð í lok júní 2022 og fyrirtækið stendur fyrir leik þar sem allir sem versla við Skeljung á vef eða í verslun fara í pott og geta unnið ferð á enska boltann, en dregið verður í lok ágúst.

„Með opnun þessarar verslunar erum við að bæta þjónustu við núverandi og nýja viðskiptavini Skeljungs. Við fundum fyrir þörf á því að bæta aðgang að okkar vöruframboði í gegnum vef og verslun. Starfsfólk okkar er sérfræðingar á sínu sviði með margra ára reynslu á þessum vettvangi. Hægt er að fá ráðleggingar um hvaða vörur henta þörfum hvers og eins, allt frá ökutækjum til stærri vinnuvéla,“ segir Kristinn og bætir við að alltaf sé heitt á könnunni í Skútuvogi 1.

Hjá Skeljungi eru um 60 starfsmenn og þar af átta konur. „Þetta er mjög karllægur starfsvettvangur og við vinnum markvisst að því að jafna kynjahlutfallið,“ segir hann.

Um áramótin eignaðist Skeljungur hlut í fyrirtæki sem heitir Ecomar og getur í kjölfar þess boðið upp á breiðara vöruframboð. Dæmi um það eru hágæða bílahreinsivörur frá þýska framleiðandanum Koch-chemie sem margar af betri bónstöðvum landsins nota og eru nú seldar í nýju versluninni í Skútuvogi.

Verslunin er merkt í bak og fyrir.