Mikil eftir­spurn er nú á fast­eigna­markaðinum hér á landi en í­búða­verð hefur hækkað stöðugt frá upp­hafi kóróna­veirufar­aldursins sam­kvæmt nýjustu tölum Þjóð­skrár. Að því er kemur fram í greiningu Ís­lands­banka þarf fram­boð að aukast tölu­vert ef anna á eftir­spurn og minnka hættu á ó­hóf­legum hækkunum.

„Mikið líf er á í­búða­markaðnum um þessar mundir og virðist sem hag­stæðir vextir á nýjum í­búða­lánum vegi tölu­vert þyngra en sú stað­reynd að við stöndum í miðri kreppu. Þar ber þó að hafa í huga að á­hrifum Kórónu­kreppunnar á heimili landsins er mjög mis­skipt,“ segir í greiningu Ís­lands­banka.

Hækkanir á í­búða­verði hafa hingað til verið hóf­legar og haldist í hendur við kaup­mátt. Heimili þar sem fyrir­vinnur hafa ekki misst starf eða orðið fyrir veru­legu tekju­tapi standa mörg hver vel fjár­hags­lega. Ís­lands­banki spáir þó enn frekari hækkunum á næstu misserum miðað við þróun síðast­liðna mánuði.

Hækkaði um 1,6 prósent milli mánaða

Sam­kvæmt tölum Þjóð­skrár hækkaði í­búða­verð á höfuð­borgar­svæðinu um 1,6 prósent í mars milli mánaða en um er að ræða mestu hækkun milli mánaða frá því um vorið 2017. Tólf mánaða hækkun í­búðar­verðs mældist 8,9 prósent en var 7,3 prósent í febrúar. Þá eru árs­hækkun sér­býla meiri en fjöl­býla en sér­býli tóku fram úr fjöl­býlum í verð­hækkunum á síðasta árs­fjórðungi 2020.

Þing­lýstir kaup­samningar á höfuð­borgar­svæðinu í mars voru um 1.050 talsins og hafa ekki verið fleiri frá því í júní 2007. Færri í­búðir voru aug­lýstar til sölu í febrúar miðað við í fyrra en sam­drátturinn á fjölda aug­lýstra eigna var um 43 prósent. Þá hefur meðal­sölu­tími styst gríðar­lega og hefur aldrei verið styttri auk þess sem um 30 prósent íbúa seldust yfir á­settu verði.

Lífleg velta á markaðinum

„Í­búða­markaður hefur komið tölu­vert á ó­vart frá því að Kórónu­kreppan skall á. Verð heldur á­fram að hækka og veltan á markaðnum er líf­leg. Það er engum blöðum um það að fletta að lækkun stýri­vaxta hefur haft gríðar­leg á­hrif á í­búða­markaðinn og minnkað greiðslu­byrði nýrra hús­næðis­lána og þar með haft á­hrif á kaup­getu al­mennings á markaði,“ segir í greiningunni.

Það er þó tekið fram að í­búðar­verðs­hækkanir hafi ekki farið fram úr hófi líkt og gerðist árið 2017. „Horfur eru á að fram­boð nýrra í­búða verði tak­markað næstu misserin og að lána­kjör á í­búða­lánum verði á­fram hag­stæð í sögu­legum saman­burði. Við teljum að í­búða­verð muni halda á­fram að hækka hóf­lega um­fram al­mennt verð­lag á næstu misserum.“

Greininguna í heild sinni má finna hér.