Nýsköpunarfyrirtækið Level Up er að þróa hugbúnað sem gerir notendum kleift að kaupa sig inn í staka tíma hjá hinum ýmsu líkamsræktar- og heilsubótarstöðum.

Sölvi Smárason, einn af stofnendum fyrirtækisins, segir að hugmyndin hafi kviknað þegar hann var að æfa hjá bardagafélaginu Mjölni en vildi sækja aðra tíma samhliða.

„Ég var búinn að vera í boxi í langan tíma og langaði að prófa Kickbox. Hins vegar komst ég að því að ég væri með of læstar mjaðmir til að geta gert spörkin og fór því í Primal Iceland til að geta opnað þær,“ segir Sölvi en bætir við að þá hafi hann áttað sig á því að hann ætti ekki efni á því að vera með áskrift af tveimur líkamsræktarstöðvum sökum þess að hann væri námsmaður.

„Þá hugsaði ég með mér að það hlyti að vera til önnur leið og upp frá því spratt þessi hugmynd. Að færa þennan fjárhagslega múr frá og opna aðgengið.“

Sölvi segir að þeir hafi aðeins fengið góð viðbrögð hjá líkamsræktarstöðvunum og hinum ýmsu fyrirtækjum.

„Það hefur enginn sagt nei við okkur af þeim sem við höfum talað við. Við héldum að það væri mesta vandamálið og við höfum fengið spurningar á borð við af hverju líkamsræktarstöðvar ættu að vera með okkar lausn. En við höfum aðeins fundið fyrir áhuga hjá þeim.“

Sölvi bætir við að eins og er sé fyrirtækið ekki að leitast eftir fjármögnun að svo stöddu. Þeir hafi þó fundið fyrir miklum áhuga.

„Þegar við tókum þátt í Startup Supernova þá tókum við fram að við værum ekki að leitast eftir fjármagni eins og er. Við ætlum fyrst um sinn að reka okkur á tekjum. Við höfum samt sem áður orðið varir við að aðilar í viðskiptalífinu, svokallaðir englar, hafi sýnt okkur áhuga og hafa boðið okkur alls konar þjónustu og greiða.“

Aðspurður hvert fyrirtækið stefnir segir Sölvi að þeir miði að því að verða næsti frístundastyrkur.

„Við viljum verða nýi frístundastyrkurinn og verða stimpill fyrir fyrirtæki. Að það verði eftirsóknarvert hjá fyrirtækjum að bjóða upp á LevelUp fríðindin. Kerfið okkar býður einnig upp á möguleikann að yfirmenn geta verðlaunað starfsfólk sitt með einhverju öðru heilsusamlegra heldur en hamborgara. Það er uppi sífellt háværari krafa meðal starfsfólk að fá betra aðgengi að hreyfingu í gegnum vinnustaðinn.“

Sölvi segir að lokum að þó þeir muni fyrst um sinn einblína á líkamsræktirnar þá munu þeir þegar fram líða stundir einnig bjóða upp á ýmsa heilsubótatíma.

„Það eru líka tækifæri í að bjóða upp á nudd, jóga, kírópraktortíma og sálfræðitíma. Við erum spenntir hvert hugmyndin mun leiða okkur.“