Nýsköpunarfyrirtækið Euneo vinnur að því að auka lífsgæði einstaklinga sem glíma við stoðkerfisvandamál með því að veita þeim aðgang að einstaklingsmiðaðri endurhæfingaráætlun og fræðslu unninni af heilbrigðisstarfsmönnum.

Snjallforritið sem fyrirtækið er með í þróun leiðir notendur í gegnum endurhæfingu með því að hjálpa þeim að fylgja æfingum og veita þeim fræðslu um ástand sitt.

Daníel Már Friðriksson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Euneo, segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað þegar hann fylgdist með föður sínum vinna.

„Pabbi er sjúkraþjálfari og ég ólst upp við að horfa á hann vinna. Mér fannst magnað hversu mikið hann gat hjálpað fólki með sjúkraþjálfun,“ segir Daníel og bætir við að þetta hafi veitt honum innblástur.

„Það leiddi til þess að ég fór sjálfur að læra sjúkraþjálfun og útskrifaðist með BS-gráðu í faginu síðasta vor. Ég fylgdist með pabba senda einstaklingum æfingar í gegnum síma. Þetta fólk náði oft svo góðum árangri að hann þurfti jafnvel ekki að hitta það. Þetta varð til þess að við hugsuðum hvort við gætum ekki nýtt þessa þekkingu og reynslu og gert hana aðgengilegri.“

Á bak við fyrirtækið eru þeir Daníel Már Friðriksson, Kjartan Örn Bogason og Torfi Tímoteus Gunnarsson, ásamt Friðriki Ellerti Jónssyni. Þeir hafa bakgrunn í hugbúnaðarverkfræði, fjármálaverkfræði og sjúkraþjálfun.

Aðspurður hvort þeir fái góð viðbrögð þegar þeir kynna hugmyndir sínar svarar Daníel því játandi.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð. Eiginlega frá öllum sem við höfum talað við. Flestir skilja ekki af hverju þetta er ekki aðgengilegt nú þegar á þennan hátt.“

Daníel segir að eins og er sé fyrirtækið ekki að leita að fjármögnun en það geti breyst þegar líður á. Hann bætir við að á þessari stundu séu þeir að leita að einstaklingum til að prufukeyra lausnina.

„Inni á heimasíðunni okkar euneohealth.com erum við að leita eftir fólki sem glímir við verki undir il. Við erum að leita að fólki til að prufukeyra prógrammið sem við erum að fara af stað með.“

Daníel segir að markmið fyrirtækisins sé að auka lífsgæði einstaklinga með stoðkerfisvandamál og gera endurhæfingu eins einfalda og aðgengilega og hægt er.

„En við viljum líka vera rödd sem fólk treystir varðandi stoðkerfisvandamál og allar upplýsingar í kringum það. Við viljum hjálpa fólki á heimsvísu og sérstaklega fólki sem hefur ekki aðgang að þessari þjónustu af einhverjum ástæðum.“