Toyota hefur fært viðskipti sín til auglýsingastofunnar Pipars\TBWA eftir að hafa efnt til samkeppni á milli fjögurra stofa. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Toyota hefur í langan tíma verið söluhæsti bíll á Íslandi og vörumerkið það sterkasta á bílamarkaði. Það hafa allir tengingu og/eða skoðun á Toyota. Þessu fyrirtæki hefur tekist, með staðfestu og skýrri makaðssetningu, að búa til mjög sterka og skýra ímynd á vörumerkinu hvað varðar gæði og góða þjónustu. Að taka við keflinu núna og gera enn betur í framtíðinni er áskorun sem gaman verður að takast á við” segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA, um verkefnið en samningur hefur verið undirritaður um samstarf næstu árin.

Guðmundur segir að auglýsingastofan hafi sjaldan farið í gegnum jafn ítarlegt ferli og í umræddri samkeppni. „Mjög nákvæm skoðun átti sér stað á stöðu stofunnar, gæðum vinnu, teymissamsetningu og hugmyndaauðgi ásamt því að menning stofunnar og hvernig teymi Toyota og teymi stofunnar myndu passa saman.“