Mörg fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafa lent á vegg hvað varðar þekkingu og þurfa að leita út fyrir landsteinana til að ráða sérfræðinga. Hagkerfið og er lítið og þjóðin fámenn. Til að byggja upp alþjóðleg fyrirtæki í hátækni og hugverkaiðnaði þarf að vera auðveldara að ráða erlenda sérfræðinga sem geta takið þátt í uppbyggingu á íslenskum hugverkaiðnaði.

Þetta sagði Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, í sjónvarpsþættinum Markaðnum sem sýndur verður klukkan níu í kvöld á Hringbraut.

Að hennar sögn þurfi að vera til staðar skattaívilnanir og aðrir hvatar til að laða að erlenda sérfræðinga til landsins. Jafnframt þurfi að einfalda þeim ferlið að fá dvalar- og atvinnuleyfi.

Sigríður sagði að það væri of flókið fyrir sérfræðinga utan EES-svæðisins að setjast að á Íslandi. „Við viljum að stjórnvöld setji af stað hraðbraut til að auðvelda hugverkafyrirtækjum að ráða til sín fólk utan úr heimi. Þetta er hindrun í vexti ýmissa fyrirtækja,“ sagði Sigríður.