Auður, fjármálaþjónusta Kviku, hefur breikkað framboð á innlánsreikningum með því að bjóða bundna reikninga með hærri vöxtum. Reikningarnir eru bundnir í þrjá mánuði og eru vextirnir á þeim 3,5 prósent sem stendur. Um er ræða óverðtryggða fastvaxtareikninga sem þýðir að þeir vextir sem eru í gildi á stofndegi reiknings gilda út allan binditímann.

Kvika kynnti fjármálaþjónustuna Auði til leiks í mars á þessu ári og bauð þá upp á óbundna innlánsreikninga. Í lok júní námu innstæður á reikningum Auðar 11,9 milljörðum króna.

„Samkeppnin á íslenskum bankamarkaði hefur ekki verið mikil síðustu ár. Viðtökurnar við óbundnum reikningum Auðar fóru fram úr okkar björtustu vonum og gáfu okkur byr undir báða vængi við að leita nýrra leiða og lausna fyrir viðskiptavini okkar, bæði núverandi og verðandi,“ segir Ólöf Jónsdóttir, forstöðumaður Auðar.

„Kvika veitir nútímalega bankaþjónustu og með lítilli yfirbyggingu getum við boðið upp á hærri vexti en gengur og gerist.“

Þjónusta Auðar fer eingöngu fram á netinu en til að stofna sparnaðarreikning þarf rafræn skilríki, og samanlögð innstæða bundins reiknings og sparnaðarreiknings þarf að vera minnst 250 þúsund krónur.