Auður, fjármálaþjónusta Kviku banka, hefur gefið út app fyrir viðskiptavini sína og tvo nýja innlánsreikninga með hæstu mögulegu innlánsvöxtum í sínum flokkum.

Nýju reikningarnir eru annars vegar með sex mánaða binditíma og 1,55 prósenta vöxtum og hins vegar með tólf mánaða binditíma og 1,75 prósenta vöxtum en um er að ræða fastvaxtareikninga. Til samanburðar bjóða aðrar innlendar bankastofnanir upp á sambærilega innlánsreikninga með vöxtum að meðaltali 1,1 prósent og 1,28 prósent.

Spurður hvernig Kvika geti boðið mun hærri vexti á bundnum reikningum en aðrir – og stærri – bankar í þessu lágvaxtaumhverfi segir Hilmar Kristinsson, verkefnastjóri yfir fjártækni hjá bankanum, að vextir Auðar hafi lækkað samhliða vaxtabreytingum Seðlabankans og þá hafi þeir sömuleiðis hækkað í þeim tilfellum þar sem álögur og skattar á innlán hafa lækkað.

„Það er aftur á móti áhugavert að vextirnir á óbundnum innlánsreikningum hjá stærri bönkunum hafa í mörgum tilfellum hækkað þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans, líklega út af samkeppni við Auði. Það hefur tíðkast að stærri innlánseigendur fái miklu betri kjör en einstaklingar. Það er ekki endilega rökrétt þar sem dreifðari fjármögnun, og fjármögnun frá einstaklingum, nýtist bönkunum betur. Á móti kemur að meira umstang fylgir fleiri innlánum en þar sem allir viðskiptavinir Auðar þjónusta sig sjálfir þá getum við boðið þessi hagstæðu kjör,“ segir Hilmar.

Þá segir Hilmar að ekki verði lengur gerð krafa um 250 þúsunda króna lágmarksinnstæðu á reikningum Auðar. „Appið eykur skalanleika til muna hjá okkur og lækkar fastan kostnað við lausnina sem gerir okkur kleift að afnema lágmarksupphæðina,“ útskýrir hann.

Auður hóf fyrst að bjóða upp á innlánsreikninga á netinu í byrjun síðasta árs og á fyrsta mánuðinum höfðu á fimmta þúsund viðskiptavina stofnað reikninga. Frá þeim tíma hefur þeim fjölgað ört.