Lögfræðikostnaður ÁTVR við að koma í veg fyrir að franska netverslunin Santewines og fleiri selji Íslendingum áfengi á netinu nemur 6,8 milljónum króna án virðisaukaskatts á fjögurra mánaða tímabili. Um er að ræða lögfræðivinnu frá maí til ágúst, en málin hafa ekki verið dómtekin. Lögfræðingur ÁTVR er Bjarki Baxter hjá Málþingi. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Markaðarins.

Arnar Sigurðsson, eigandi Sante­wines SAS, segir að ÁTVR stundi að níðast á minni máttar. „ÁTVR er í raun í hlutverki hrottans á skólalóðinni sem níðist á minni máttar. Það segir hvergi í lögum um ÁTVR að þeir eigi að vera að velta þessu fyrir sér. Mögulega flokkast þetta bara sem nýsköpun í opinberum rekstri eða eitthvað álíka,“ segir hann í samtali við Markaðinn og bætir við að það sé kominn tími til að löggjafarvaldið skerpi á því hvernig ÁTVR og viðlíka stofnanir vinni.

Arnar Sigurðsson, eigandi Sante­wines SAS.

ÁTVR kærði Arnar Sigurðsson, frönsku netverslunina Santewines SAS og innflutningsfyrirtækið Sante ehf. til lögreglu og skattyfirvalda. Snýst málið um að fyrirtækið er sakað um að hafa ekki gert skil á innheimtum virðisaukaskatti. Einnig telur stofnunin að franska netverslunin Santewines sé „málamyndagjörningur“. Vínið sem selt sé til neytenda sé flutt inn af hinu íslenska Sante ehf.

Arnar Sigurðsson, eigandi Sante­­wines SAS og Sante ehf., er með lager á Íslandi og rekur netverslun með áfengi og hóf í maí að bjóða upp á skjóta heimsendingu á áfengi.

Kærur hafa einnig verið lagðar fram gagnvart Bjórlandi ehf., Brugghúsinu Steðja ehf. og eigendum fyrirtækjanna.

Kostaður ÁTVR við málið sundurliðast þannig að í maí á þessu ári hljóp lögfræðikostaðurinn á 1,3 milljónum fyrir 54 tíma vinnu, í júní nam hann 1,9 milljónum króna fyrir 81,5 tíma vinnu en í júlí nam hann 1,8 milljónum króna fyrir 72,5 tíma vinnu. Í ágúst nam heildarlögfræðikostnaðurinn 885 þúsundum fyrir 35,75 tíma vinnu. Það sem af er liðið september hefur kostnaðurinn verið 879 þúsund fyrir 35,5 tíma vinnu.

Allar upphæðirnar eru án virðisaukaskatts þannig að heildarkostnaður án virðisaukaskatts nemur um 6,8 milljónum króna líkt og áður sagði.