Atvinnuþátttaka hefur aukist nokkuð á þessu ári og var 79,8 prósent í ágúst. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er áætlað að um 211.600 manns hafi verið á vinnumarkaði í ágúst. Af þeim voru 200.800 starfandi eða 75,8 prósent af vinnuaflinu. Atvinnulausir og í atvinnuleit voru 10.900 eða um 5,5 prósent af vinnuaflinu.

„Samkvæmt könnun Hagstofunnar höfðu alls um 27.200 einstaklingar þörf fyrir atvinnu í ágúst 2021. Sá fjöldi jafngildir 12,2% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Samsvarandi tala var 9,9% í fyrri mánuði, Af þessum hópi voru 40% atvinnulausir (40% í júlí) og 34% tilbúnir að vinna en ekki að leita að vinnu - það hlutfall var 22% í júlí. 6% voru í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna (9% í júlí) og 20% voru starfandi en samtímis vinnulitlir og vildu vinna meira (29% í júlí). Þessi tala Hagstofunnar, um 12,2% þörf fyrir atvinnu, er verulega hærri en mæling Vinnumálastofnunar á heildaratvinnuleysi í ágúst, sem var 5,5%. Samkvæmt þröngri skilgreiningu Hagstofunnar á atvinnuleysi var það hins vegar talið vera 5,2% í ágúst." segir í Hagsjánni.

Starfandi fólki í ágúst fjölgaði milli ára en fækkaði nokkuð frá síðasta mánuði. Í ágúst fjölgaði starfandi fólki um 3 prósent miðað við sama mánuð í fyrra.