Skráð atvinnuleysi mældist 4,8 prósent í janúar og jókst um 0,5 prósentustig frá því í desember, samkvæmt nýjum tölum frá Vinnumálastofnun. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í mánuðinum eða 9,0 prósent og jókst um 0,3 prósentustig á milli mánaða.

Að sögn Vinnumálastofnunar voru að jafnaði 8.808 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í síðasta mánuði og fjölgaði þeim um 789 frá því í desember. Alls voru 3.406 fleiri á atvinnuleysisskrá í janúar 2020 en í janúar í fyrra.

Þá voru að jafnaði 5.103 karlar atvinnulausir í janúar og 3.705 konur. Þannig var atvinnuleysi 5,0 prósent á meðal karla og jókst um 0,6 prósentustig frá fyrri mánuði og 4,6prósent á meðal kvenna og jókst um 0,4 prósentustig.

Atvinnuleysi jókst hvað mest í mánuðinum á Vestfjörðum eða úr 2,6 prósentum í desember í 3,2 prósent í janúar. Atvinnuleysi var hvað mest á Suðurnesjum, eins og áður sagði, en næstmest var það á höfuðborgarsvæðinu eða 4,8 prósent. Þá var atvinnuleysi 4,4 prósent á Norðurlandi eystra.

Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 2,1 prósent og þá mældist það 2,8 prósent á Austurlandi.

Vinnumálastofnun segir að gera megi ráð fyrir að skráð atvinnuleysi aukist í febrúar en að aukningin verði þó minni en í janúar. Þannig verði atvinnuleysi á bilinu 4,8 til 5,0 prósent í mánuðinum.

Atvinnulausum fjölgaði í öllum atvinnugreinum í janúar 2020 frá janúar 2019. Mesta fjölgunin var á fjölda atvinnulausra í mannvirkjagerð og flutningum. Hins vegar var minnsta fjölgunin í fræðslustarfsemi og í upplýsingum og fjarskiptum.

Að því er varðar fjölda atvinnulausra eftir starfsstéttum þá fjölgaði atvinnulausum mest á meðal sérhæfðs iðnverkafólks, iðnaðarmanna svo og meðal skrifstofufólks, að sögn Vinnumálastofnunar.